Sannar annars „drottnunargirni“ ESB

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mái ESB ekki Ísland af skrá sinni um umsóknarríki sannar tregðan til þess aðeins drottnunargirni valdamanna ESB í Brussel og svik þeirra við fyrri yfirlýsingar um að það sé á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða stöðu lýðveldisins Íslands gagnvart Evrópusambandinu – annaðhvort eru ríki umsóknarríki eða ekki, Ísland er það ekki.“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðu sinni. Vísar hann þar til bréfs ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins á dögunum þar sem farið var fram á að Ísland yrði tekið af lista sambandsins yfir umsóknarríki. Ekki hefur verið orðið við því enn og hafa talsmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins lýst því yfir að þeir telji bréfið ekki nægjanlega skýrt. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur hins vegar sagt ekkert óljóst í þessum efnum og að hann geri ekki ráð fyrir öðru en sambandið virði ósk stjórnvalda.

Björn segir ljóst að bréf ríkisstjórnarinnar breyti ekki þingsályktun Alþingis frá 2009 um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið. „Hún er hins vegar barns síns tíma eins og þingsályktanir um pólitísk efni. Umræður um bréf ráðherran leiða hins vegar í ljós hve illa var að öllum undirbúningi staðið við gerð ályktunarinnar, hve villandi upplýsingar voru gefnar um eðli viðræðnanna við ESB og hve fljótt kom í ljós að hagsmunir Íslands og ESB í sjávarútvegsmálum eru algjörlega gagnstæðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert