Segjast sjá fingraför Jóhönnu

Þau Sigríður Ingibjörg og Árni Páll takast í hendur á …
Þau Sigríður Ingibjörg og Árni Páll takast í hendur á fundinum í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það eru engar ýkjur að segja að innviðir Samfylkingarinnar hafi leikið á reiðiskjálfi þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þriðji þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, tilkynnti, mörgum að óvörum, framboð sitt til formanns síðdegis í fyrradag.

En svo virðist sem einhverjum viðmælendum blaðamanns úr röðum Samfylkingarinnar í gær hafi ekki komið framboðið mikið á óvart og ekki heldur hin síðbúna tímasetning á því að tilkynna framboðið. Segja þeir augljós fingraför Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, vera á framboði Sigríðar Ingibjargar.

Einungis landsfundarfulltrúar

Formannskjör í Samfylkingunni hefur hingað til farið fram þannig að allir félagsmenn höfðu kosningarétt í allsherjaratkvæðagreiðslu, en í formannskjörinu í gær, voru það einungis kjörnir landsfundarfulltrúar, eitthvað í kringum 800 talsins, sem gátu kosið. Kosningaþátttaka hefur frá stofnun flokksins fyrir 15 árum verið misjöfn.

Karl Th. Birgisson, ritstjóri veftímaritsins Herðubreiðar, rifjar upp kosningaþátttöku félaga í pistli á heimasíðu tímaritsins í gær: „Össur Skarphéðinsson var kjörinn fyrsti formaður flokksins í almennri atkvæðagreiðslu og tóku um 4.500 manns þátt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir felldi Össur í formannskjöri árið 2005 og voru þá greidd um tólf þúsund atkvæði. Jóhanna Sigurðardóttir fékk ekki mótframboð og var sjálfkjörin 2009 og 2011. Loks sigraði Árni Páll Árnason í formannskjöri árið 2013. Þá greiddu um 5.500 almennir flokksmenn atkvæði.“

Kosningarétt hafa landsfundarfulltrúar sem greitt hafa landsfundargjald, 5.900 kr.

Árni Páll sagður gáttaður

Karl Th. segir ennfremur: „Óhætt er að segja að tilkynning Sigríðar Ingibjargar í gær hafi komið á óvart og valdið nokkru uppnámi í flokknum. Herðubreið hefur heimildir fyrir því að í aðdraganda landsfundar hafi fjölmargir afþakkað boð um að vera landsfundarfulltrúar þar sem ekki hafi stefnt í meiri háttar kosningar á þinginu, hvað þá formannskjör. Þeir hinir sömu eru afar ósáttir við að nú stefni í formannskjör þar sem þeir hafa ekki tækifæri til að greiða atkvæði.

Í fyrsta sinn í sögu flokksins eru það því fáein hundruð manna, en ekki mörg þúsund, sem geta greitt atkvæði í formannskjöri. Og atkvæðisrétturinn kostar 5.900 krónur.“

Í samtölum blaðamanns við samfylkingarfólk í gær, bæði þingmenn og óbreytta, kom fram að framboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur virðist hafa komið langflestum algjörlega í opna skjöldu. Því var einnig haldið fram að framboð hennar hefði komið Árna Páli mest á óvart – hann hefði bókstaflega verið gáttaður, enda tilkynnti Sigríður Ingibjörg ekki framboð sitt fyrr en réttum sólarhring áður en formannskjör hófst, um kl. 17.30 í fyrradag.

Árni Páll var rétt búinn að frétta af mótframboðinu þegar frétt um það kom í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 18 í fyrradag og engum duldist, sem horfðu á sjónvarpsfréttir RÚV kl. 22 í fyrrakvöld, að Árni Páll var þykkjuþungur, svo ekki sé meira sagt.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert