Segist íhuga stöðu sína

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist íhuga stöðu sína eftir viðbrögðin við framboði hennar til formanns flokksins frá áhrifafólki. „ Aðdróttanir sem þessar að persónu manns eru þess eðlis að manni stendur ekki á sama,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður flokksins tjáði sig um framboð hennar á Facebook í gær og sagði framboð Sigríðar misráðið og að það hefði aldrei getað endað öðruvísi en illa.

„Það eru lýðræðislegar reglur innan flokksins og ég fór að þeim vegna fjölda áskorana og bauð mig fram. Með kosningarétt voru kjörnir fulltrúar á landsfundi sem eru þverskurður af flokknum. Við ættum að geta komið sterkari út úr formannskjörinu en ella en svona málflutningur er ekki til þess fallinn,“ segir Sigríður Ingibjörg og bætir þó við að hún finni fyrir miklum stuðningi innan flokksins.

„Ég á náttúrlega mikinn stuðning og víðtækan innan flokksins en þarna er þó ljóst að áhrifafólk í flokknum er að gera mér upp persónueinkenni.“

„Mér fannst þetta sterkur landsfundur og mér finnst það hafa komið skýrt fram að ég og formaðurinn erum tilbúin í samstarf. Ég styð hann og virði niðurstöðu landsfundar. Það var margt nýtt ungt fólk með skýra sýn kosið inn í áhrifastöður í flokknum og margar róttækar tillögur voru samþykktar,“ segir Sigríður Ingibjörg og bætir við: „Samfylkingin hefur alla burði til að fara í hörkusókn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert