20 milljónir söfnuðust í neyðarsöfnun

Frá afhendingu framlags Fatimusjóðs.
Frá afhendingu framlags Fatimusjóðs.

Neyðarsöfnun UNICEF og Fatimusjóðs, í þágu menntunar sýrlenskra flóttabarna, lauk í gær. Almenningi á Íslandi gafst kostur á að styrkja söfnunina með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 og útvega þannig sýrlensku flóttabarni pakka af skólagögnum. Þannig gáfu Íslendingar 3355 börnum skólagögn. Einnig var hægt að styrkja söfnunina með því að leggja frjáls framlög inn á reikning Fatimusjóðs.

Í gær afhentu fulltrúar Fatimusjóðsins UNICEF á Íslandi 15 milljónir króna, sem er stuðningur sjóðsins og almennings. Þeirri fjárhæð verður varið til að reka miðstöð fyrir óformlega menntun 350 sýrlenskra flóttabarna í Jórdaníu í heilt ár. Í miðstöðinni fá börnin kennslu í grunngreinum, eins og lestri og skrift, en einnig verkmenntun, kennslu í lífsleikni, sálræna aðstoð og annars konar stuðning.

„Við hjá Fatimusjóði erum afskaplega lukkuleg með hvernig til hefur tekist. Ótalmargir einstaklingar og fyrirtæki lögðu sitt af mörkum í þágu þessa góða málstaðar og við áttum frábært samstarf við UNICEF. Nú hlökkum við til að fá fréttir af því hvernig framlag okkar nýtist í þágu sýrlensku flóttabarnanna. Við hvetjum fólk jafnframt til að muna áfram eftir sýrlensku börnunum, sem eru fórnarlömb hins ægilega stríðs,“ segir Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi Fatimusjóðs, í fréttatilkynningu.

Þakklæti 

Ótal einstaklingar, hópar og fyrirtæki lögðu söfnuninni lið með einum eða öðrum hætti. Ber þar hæst framlag Hrafns Jökulssonar og félaga hans í skákfélaginu Hróknum sem stóðu fyrir skákmaraþoni í Hörpu 6.-7. mars. Þar gafst fólki kostur á að taka eina skák og styrkja söfnunina um leið. Yfir 200 manns tefldu við Hrafn sem sat við skákborðið frá morgni til miðnættis báða dagana.

„Samstarf UNICEF og Fatimusjóðsins hefur verið afar ánægjulegt og við erum þeim innilega þakklát fyrir þeirra rausnarlega framlag. Við viljum líka koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra fjölmörgu sem lögðu söfnuninni lið og láta sig þannig velferð og framtíð sýrlenskra barna varða. Þau verða vonandi sú kynslóð sem kemur til með að byggja Sýrland upp á nýjan leik. Þar skiptir menntun afar miklu máli,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

15. mars síðastliðinn voru liðin fjögur ár frá upphafi átakanna í Sýrlandi. Engin pólitísk lausn er í sjónmáli og hefur helmingur þjóðarinnar lagt á flótta. 7,5 milljón sýrlenskra barna er ýmist á vergangi innan heimalandsins eða hefur neyðst til að flýja yfir til nágrannaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert