Breytingarnar snerta 40 starfsmenn

Myndin var tekin þegar Samgöngustofa flutti í nýtt húsnæði í …
Myndin var tekin þegar Samgöngustofa flutti í nýtt húsnæði í fyrra. mbl.is/Þórður

Skipulagsbreytingarnar hjá Samgöngustofu í dag höfðu áhrif á samtals 40 einstaklinga hjá stofnuninni, segir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu. Líkt og fram hefur komið í fréttum mbl.is í dag, þá voru skipulagsbreytingarnar liður stofnunarinnar í því að halda sig innan fjárlaga.

Frétt mbl.is: Þrettán sagt upp hjá Samgöngustofu

Fimmtán starfsmönnum var sagt upp hjá Samgöngustofu í dag en tveimur þeirra var boðið aftur starf, sem þeir þáðu. Fimm til viðbótar urðu að taka á sig stöðulækkun og kjaraskerðingu.

Skipulagsbreytingarnar höfðu þannig bein áhrif og kjaraskerðingu tuttugu starfsmanna en þar að auki fluttust 20 starfsmenn til innan stofnunarinnar án þess að taka á sig kjaraskerðingu, en með aukin verkefni. Hafa skipulagsbreytingar Samgöngustofu því samtals áhrif á 40 einstaklinga.

Þórólfur segir alla starfsmenn Samgöngustofu taka á sig aukna vinnu til þess að tryggja öryggi í samgöngum. „Við stöndum við þá alþjóðasamninga og þær vottanir sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að hlíta,“ segir Þórólfur en bætir við að Samgöngustofa muni ekki taka að sér fleiri verkefni án þess að þeim fylgi aukin fjárveiting.

Starfsemi Samgöngustofu verður óbreytt á Ísafirði, Akureyri og Stykkishólmi en tvö stöðugildi eru á hverjum staðanna þriggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert