Brjóstamyndin ógnaði skiptináminu

Mynd Öddu kom hlutunum á hreyfingu.
Mynd Öddu kom hlutunum á hreyfingu. Ljósmynd/Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir

Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, nemandi við Verslunarskóla Íslands, er sú sem ýtti við kynsystrum sínum á samfélagsmiðlinum Twitter með því að setja inn mynd af sér þar sem mátti sjá brjóst hennar.

Hún tók myndina út af samfélagsmiðlinum fljótlega eftir að hún setti hana inn á Twitter, eftir að henni var bent á að myndbirtingin gæti komið í veg fyrir fyrirhugað skiptinám hennar til Kosta Ríka.

Frétt mbl.is: Geirvartan verður gefin laus á morgun

„Gefum geirvörtuna frjálsa“, eða #FreeTheNipple, viðburðurinn verður haldinn í nokkrum menntaskólum á morgun. Þar á meðal eru Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Hamrahlíð, Verslunarskóli Íslands. Þá hefur Femínistafélag Háskóla Íslands hvatt nemendur skólans til þess að mæta án brjóstahaldara í skólann á morgun.

„Eftir að femínistafélagið í Verslunarskólanum auglýsti viðburðinn #FreeTheNipple þá fór ég að hugsa afhverju ég mætti þetta ekki og þá hófst þessi umræða,“ segir Adda. Daginn eftir að hún setti myndina inn á Twitter fékk hún neikvæðar athugasemdir frá tveimur strákum. Hún segir að hópur fólks hafi þá komið henni til varnar á samfélagsmiðlum.

Á leið í skiptinám

„Ég er á leið í skiptinám til Kosta Ríka, sem er kaþólskt land. Svona hlutir geta komið í veg fyrir að ég fái að vera þar,“ segir Adda en bætir við að henni finnist mjög leiðinlegt að hafa þurft að taka myndina út. „Þetta snýst alls ekki um hvort ég, eða fjölskylda mín, vilji hafa þessa mynd á netinu,“ segir Adda og bætir við að móttökurnar við myndinni hennar sýni hvað Ísland sé komið langt varðandi jafnrétti.

Hún segir ótrúlegt hvað samstaðan sé mikil og hversu margir skólar hafi ákveðið að taka þátt í byltingunni á morgun. Sjálf verður hún ekki í skólanum á morgun þegar nemendur Verslunarskólans ætla að gefa geirvörtuna lausa, þar sem hún verður stödd á ráðstefnu í Stykkishólmi um ungt fólk og lýðræði.

-Ætlar þú þá að taka þátt í #FreeTheNipple í Stykkishólmi?

„Ójá!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert