Fjárheimildir þrengri en áður

Starfsmenn bera merki Samgöngustofu þegar stofnunin flutti úr Kópavogi í …
Starfsmenn bera merki Samgöngustofu þegar stofnunin flutti úr Kópavogi í Ármúla. Þórður Arnar Þórðarson

Fjárheimildir þessa árs til reksturs Samgöngustofu eru þrengri en áður hafði verið gert ráð fyrir og var brugðist við því með skipulagsbreytingum innan Samgöngustofu. Hefur nýtt skipurit verið kynnt til sögunnar hjá stofnuninni sem miðar að hagræðingu, aukinni samhæfingu og áherslu á enn betri nýtingu mannauðs og verkferla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samgöngustofu.

Líkt og greint var frá á mbl.is fyrr í dag var 13 starfsmönnum samgöngustofu sagt upp í dag en starfstöðvar stofnunarinnar á Akureyri, Stykkishólmi og Ísafirði verða áfram starfræktar. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, vildi ekki tjá sig um uppsagnirnar að svo stöddu fyrir utan það sem fram kemur í fréttatilkynningu stofnunarinnar.

Áhersla lögð á áframhaldandi fagmennsku

„Við úrfærsluna hefur sérstök áhersla verið lögð á áframhaldandi fagmennsku og að öryggi samgangna sé tryggt. Nýrri þjónustudeild verður komið á laggirnar sem sér um móttöku erinda, umsjón með farartækjaskrám og afgreiðslu á leyfisveitingum og útgáfu skírteina.

Ábyrgð á úrlausnum sérfræðiverkefna verður á sameinuðu fagsviði flugmála, siglingamála og umferðarmála. Ýmis einstök verkefni flytjast á milli sviða, tilfærslur verða innan húsnæðis Samgöngustofu og margir taka að sér ný og aukin verkefni.

Meiri áhersla verður lögð á rafræna afgreiðslu viðskiptavina sem bætir þjónustu, eykur skilvirkni og léttir álagi af öllum sviðum,“ segir í fréttatilkynningunni.

Með skipulagsbreytingunni fækkar starfsfólki Samgöngustofu um 13 stöðugildi og hefur Vinnumálastofnun og trúnaðarmönnum stéttarfélaga verið tilkynnt um það, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert