Telur kröfum tæknimanna mætt

Útvarpshúsið
Útvarpshúsið mbl.is/Árni Sæberg

Með tilboði sem lagt var fram í dag um fyrirtækjasamning milli Ríkisútvarpsins og þeirra ríflega 50 starfsmanna sem eru í Rafiðnaðarsambandi Íslands, telur RÚV að mætt hafi verið þeim efnislegu atriðum sem félagsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV hafa kallað eftir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu þar sem segir að fulltrúar Rúv telji þetta nýja tilboð grunn að nýjum samningi.

Stuttu fyrir kl. 17 úrskurðaði félagsdómur að boðað verkfall RSÍ væri ólögmætt svo ekki kemur til vinnustöðvunar hjá RÚV að svo komnu. Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands, seg­ir að tækni­legt atriði við at­kvæðagreiðslu um verk­falls­boðun hafi orðið til þess að hún var dæmd ólögmæt og að náist ekki samningar fyrir helgina verði aftur gengið til atkvæða.

Í tilkynningu Ríkisútvarpsins er vitnað í Magnús Geir Þórðarson þar sem hann segist fagna þvi að samninganefndirnar hafi nú meiri tíma til að ræða saman á grundvelli nýja tilboðsins.

„Með því viljum við mæta óskum þessa hóps og bjóðum upp á fyrirtækjasamning sem á að mæta efnislega þeim óskum sem hópurinn hefur sett fram. Þannig teljum við að sérstaða þessa hóps og starfsemi Ríkisútvarpsins sé viðurkennd og mætt með jákvæðri nálgun sem á að geta gagnast báðum aðilum.

 Það er von okkar að með þessu tilboði takist að forða þeirri miklu röskun á dagskrá RÚV sem að öðrum kosti blasir við þjóðinni næstu daga ef verkfall hefði skollið á,“ segir Magnús.

Fréttir mbl.is:

Ólögmætið snýr að fjölda kjörkassa

Verkfallið ólöglegt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert