Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi

Heimasíða Já.
Heimasíða Já.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem komst að þeirri niðurstöðu að Já hf. hefði brotið samkeppnislög, en Samkeppniseftirlitið hafði jafnframt lagt 50 milljón kr. stjórnvaldssekt á fyrirtækið.

Málið varðar fjarskiptamarkað á Íslandi og aðgang keppinauta að gagnagrunni Já.

Upphaf málsins má rekja til þess að í nóvember 2011 áframsendi Póst- og fjarskiptastofnun ágreiningsmál til Samkeppniseftirlitsins sem vörðuðu aðgang að gagnagrunni Já. Þá barst Samkeppniseftirlitinu kvörtun frá Loftmyndum ehf. þar sem því var haldið fram að Já hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með óeðlilegri verðlagningu sem jafngilti synjun um aðgang að gagnagrunni Já um símanúmer. Einnig barst kvörtun frá Miðlun ehf. í desember 2011, þar sem í aðalatriðum var byggt á sambærilegum sjónarmiðum og í kvörtun Loftmynda ehf.

Í framhaldi hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn málsins og tók þann 7. nóvember 2014 hina kærðu ákvörðun. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að Já hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins og var lögð á hann stjórnvaldssekt. Í hinni kærðu ákvörðun beitti Samkeppniseftirlitið heimild 16. gr. samkeppnislaga og beindi fyrirmælum til áfrýjanda sem tengjast aðgangi að umræddum gagnagrunni.

Aðstæður sköpuðust fyrir brot gegn samkeppnislögum

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Já hafi verið markaðsráðandi á tilteknum markaði sem Samkeppniseftirlitið afmarkaði réttilega. Málsástæður Já sem lúti því að gagnagrunnur hans sé háður höfundarrétti og persónuverndarreglum hafi enga þýðingu, enda hafi aðgangurinn verið boðinn og veittur öðrum án tillits til þeirra reglna.

Einnig liggi fyrir að mati áfrýjunarnefndarinnar að við kaup á hlutum í Já hafi beinlínis verið gert ráð fyrir því að Síminn hf. tæki þátt í því með Já að hamla tilraunum til að keppa við áfrýjanda. Þau áform, ef af hefði orðið, hefðu falið í sér alvarlegt brot gegn samkeppnisreglum. Gögn málsins beri því með sér að skapaðar hafi verið aðstæður fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga

Samkeppniseftirlitið aflaði ekki fullnægjandi gagna

„Þrátt fyrir þetta stendur málið og fellur með því hvort áfrýjandi hafi í reynd synjað um aðgang að gagnagrunni sínum með því að setja upp verð sem teldist óhóflegt og ómálefnalegt. Í hinni kærðu ákvörðun eru lögð á refsikennd viðurlög. Mat á réttarheimildum og sönnunaraðstöðu verður að skýra í því ljósi. Samkeppniseftirlitið lagði ekki sjálfstætt mat á kostnaðargrunn og hæfilegt endurgjald við endursölu eða aflaði fullnægjandi gagna þar um miðað við þau sjónarmið sem vikið er að í köflum 2.3.4 og 2.3.7 hér að framan. Miðað við þessa niðurstöðu og eins og málið liggur fyrir þykir því rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi í heild sinni,“ segir í úrskurði áfrýjunarnefndar.

Niðurstaðan fordæmisgefandi

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir í fréttatilkynningu, sem fyrirtækið hefur sent frá sér vegna málsins, að niðurstaða áfrýjunarnefndar sé fordæmisgefandi. Hún hafi því áhrif á starfskilyrði allra íslenskra fyrirtækja sem sinni upplýsingaþjónustu og hafa fjárfest í uppbyggingu gagnagrunna hérlendis.

„Við fögnum þessari niðurstöðu, enda var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins einsdæmi í Evrópu. Áður hafði Úrskurðarnefnd fjarskipta-­‐ og póstmála staðfest að það væri hlutverk símafyrirtækjanna, ekki Já, að selja símanúmeraupplýsingar í heildsölu“ segir Sigríður í tilkynningunni.

„Það væri ekki eftirsóknarvert að byggja upp slíka starfsemi á Íslandi hefði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðið. Þetta er mjög jákvætt fyrir markaðinn almennt þar sem fjárfestingar á þessu sviði hafa aukist mikið undanfarin ár, í kjölfar mikilla tæknibreytinga eins og við öll þekkjum. Það er einnig ánægjulegt að fá það staðfest að það sé ekki hlutverk Já að niðurgreiða rekstrarkostnað samkeppnisaðila sinna, enda kemur fram í úrskurði nefndarinnar að með því móti væri samkeppnisstaða skekkt,“ segir forstjórinn ennfremur.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert