„Verðum að hætta starfsemi Íbúðalánasjóðs“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fólk hefur verið hvatt til þess að skulda á undanförnum ártugum í stað þess að hjálpa því til þess að eignast. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Það hafi verið gert með vaxtabótakerfi og háum lánshlutföllum. Vaxtabæturnar á undanförnum árum væri svipuð upphæð úr ríkissjóði og skuldaniðurfærsla ríkisstjórnarinnar.

Gerði Guðlaugur einnig að umtalsefni sínu stöðu Íbúðalánasjóðs sem nyti ríkisábyrgðar upp á 900 milljarða króna eða ein og hálf fjárlög ríkisins. Nú væri sú staða hins vegar komin upp að enginn vildi vera í viðskiptum við sjóðinn. Þannig hafi heildarútlánin hjá Íbúðalánasjóði árið 2014 verið um 6% og rekstrartapið væri nokkurn veginn sama upphæð og rekstrarkostnaður eða um þrír milljarðar. Af hverri krónu sem væri lánuð út væru fimm krónur greiddar út vegna þess að fólk vildi ekki vera með lánin sína hjá sjóðnum.

Ríkissjóður hefði sett 55 milljarða króna af skattfé í Íbúðalánasjóð frá árinu 2009. Til samanburðar kostaði nýr Landspítali samkvæmt nýjustu áætlun 51 milljarð. Það sorglegasta væri að þetta þyrfti ekki að gera. „Við þurfum að forgangsraða og við verðum að hætta starfsemi Íbúðalánasjóðs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert