900 handklæði horfið frá áramótum

Formlegri söfnun handklæðanna lauk í gær.
Formlegri söfnun handklæðanna lauk í gær.

Líkamsræktarstöðin Hreyfing hefur undanfarna viku staðið fyrir svokallaðri handklæðasöfnun. Ber söfnunin heitið „Handklæðin aftur heim“ og eru viðskiptavinir stöðvarinnar hvattir til að skila handklæðum sem þeir gætu hafa tekið með sér heim fyrir misgáning.

Frá áramótum hafa um 900 handklæði horfið úr húsakynnum stöðvarinnar. Tinna Brynjólfsdóttir verkefnastjóri Hreyfingar segir að eitthvað magn hafi þó skilað sér til baka í söfnuninni, sem lauk formlega á fimmtudag.

„Við vitum ekki alveg hversu mikið kom til baka því fólk laumar þessu svona í staflana hjá okkur. Það skilar sér alltaf eitthvað til baka en það er rosalega mikið magn sem bara hverfur,“ segir Tinna, en um er að ræða stór jafnt sem lítil handklæði, merkt Blue Lagoon.

Nýliðin söfnun er ekki sú fyrsta sem Hreyfing hefur ráðist í. „Síðast þegar við gerðum þetta þá urðum við vör við að fólk skilaði miklu til baka en okkur finnst það vera eitthvað minna núna. Ég veit svosem ekki hversu mikið hefur komið inn en ég hef allavega ekki orðið vör við einhverja bunka.“

Aðspurð segir hún hvarf handklæða frá áramótum ekki vera óvenju mikið. „Þetta hverfur eins og ég veit ekki hvað. Þetta er svona hjá öllum líkamsræktarstöðum held ég. Ég held að fólk ætli sér ekkert endilega að brjóta af sér en því finnst kannski eins og það megi bara taka með sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert