Réðst á konu og barði með flösku í höfuðið

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

  Rúmlega tvítugur karlmaður var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir margvísleg brot. Meðal annars líkamsárásir, hegningar- og umferðarlagabrot. 

Maðurinn, Þorlákur Ari Ágústsson, varð 21 árs í gær en hann á að baki sakaferil allt frá árinu 2010. Hann hefur fimm sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Brotin sem hann var dæmdur fyrir í gær eru flest framin á skilorði og eða eru ítrekunarbrot. Til frádráttar kemur  óslitið gæsluvarðhald Þorláks frá 8. október 2014, en þann dag var hann úrskurðaður í gæsluvarðahald vegna rannsóknar sakamála sem hann var dæmdur fyrir í gær.

Hann var jafnframt sviptur ökuréttindum í þrjú og hálft ár og eins var lagt hald á fíkniefni sem tekin voru af Þorláki við rannsókn málsins. Honum er gert að greiða fórnarlambi sínu 700 þúsund krónur í skaðabætur og rúmlega tvær milljónir króna í sakarkostnað.

Þorlákur Ari var meðal annars dæmdur fyrir að hafa barið unga konu í höfuðið með flösku fyrir utan veitingastað á Hverfisgötu í maí í fyrra en unga konan var að koma vinkonu sinni til bjargar sem hann hafði einnig barið.  Samkvæmt lýsingu vitna sló Þorlákur konuna í jörðina,lagst ofan á hana  og teygt sig í flösku sem legið hafi á jörðinni og slegið konuna ítrekað í höfuðið með flöskunni. Konan hafi legið á bakinu og reynt að verja andlit sitt með því að snúa höfðinu undan. Flaskan hafi brotnað við árásina. Þorlákur hafi að auki veitt henni hnéspörk sem lent hafi í læri hennar.

Fórnarlambið vonast til að Þorlákur Ari sjái ljósið

Fórnarlamb árásarinnar skrifar á Facebook í gær:

„Elsku drengurinn sem réðst á okkur var sakfelldur í dag og fékk 3 ár. Það sem mér fannst erfiðast í dómsalnum var að sjá ástandið á honum. Mig langaði helst að faðma hann og segja eitthvað við hann sem fengi hann til að fatta að því fyrr sem hann fer að vinna í sorginni sinni, sem fær hann til að gera svona hluti, því fyrr getur hann orðið frjáls og hamingjusamur. Ég vona svo innilega í hjarta mínu að hann sjái ljósið á þessum 3 árum sem hann hefur til að hugsa sinn gang og óska ég honum og hans fjölskyldu alls hins besta. Ég vona að þeir sem trúa á að orku, bænir eða að góðar hugsanir geti actually haft áhrif á aðra og umhverfið okkar hugsi til hans og þeirra með ást og hlýju“ skrifar hún á Facebook en samkvæmt niðurstöðu dómsins hefur hún tekist á við mikinn kvíða eftir árásina þetta kvöld hafi hún fengið sér einn drykk með mat. Hún hafi verið á leið heim er þetta gerðist og ekki lengur verið undir áhrifum áfengis.

Hún hafi verið lengi að jafna sig eftir árásina og verið óvinnufær þetta sumar. Hún hafi leitað til sjúkraþjálfara til að ná bata. Eins hafi hún greinst með áfallastreituröskun eftir árásina og hafi lengi á eftir átt erfitt með að fara niður í bæ og að vera ein.

Hann var einnig dæmdur fyrir fleiri líkamsárásir þar meðal aðra síðar þennan sama dag`fyrir utan Perluna. Ekki þótti sannað að hann hafi beitt kúbeini við árásina en hann neitaði sök en Þorlákur var dæmdur fyrir að hafa veitt manninum áverka með því að henda honum út úr bifreið.

Þorlákur var einnig dæmdur fyrir að hafa slegið mann í andlitið fyrir utan skemmtistað í Tryggvagötu í Reykjavík í mars 2013 og mánuði síðar að hafa hrækt á lögreglumann sem tók þátt í að handtaka hann og hótað lögreglumanni og bróður hans ofbeldi.

Samkvæmt dómi héraðsdóms eru brot Þorláks Ara margvísleg og er hægt að lesa dóminn í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert