Vorið stoppaði stutt

Það var of snemmt að fagna vori.
Það var of snemmt að fagna vori. mbl.is/Malín Brand

Það stoppaði stutt við vorið þetta árið því er íbúar á höfuðborgarsvæðinu vöknuðu í morgun var jörð hvít á ný og hálka á götum og stígum. 

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan 5-13 m/s með éljum, en bjartviðri NA- og A-lands. Suðvestan 10-18 síðdegis á morgun, hvassast SA-til og bætir í él þar. Heldur kólnandi veður, hiti um eða rétt yfir frostmarki að deginum.

Á föstudag:
Suðvestan 8-15 m/s, hvassast við SV-ströndina. Víða él, en léttskýjað á NA- og A-landi. Hiti um frostmark að deginum.

Á laugardag:
Vestlæg átt 5-13 m/s og él, en bjartviðri A-lands. Hægari vindur síðdegis. Kólnandi veður, einkum N-til.

Á sunnudag:
Norðaustan 8-15 m/s um landið N-vert og snjókoma, annars hægari austlæg eða breytileg átt og víða él. Hiti um eða undir frostmarki, mildast syðst.

Á mánudag:
Norðanátt og snjókoma eða él, en bjartviðri á S- og V-landi. Frost 1 til 7 stig.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Stöku él með S-ströndinni, en bjart að mestu annars staðar. Hiti frá frostmarki syðst, niður í 10 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir breytileg átt með éljum um landið S-vert, annars þurrt að kalla. Áfram kalt í veðri.

Hálka á Öxnadalsheiði

Snjóþekja er víða á  Suðurlandi og hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Vesturlandi er einnig víða snjóþekja.

Snjóþekja eða nokkur hálka er víða á fjallvegum á Vestfjörðum. Þungfært er um Steingrímsfjarðarheiði og Þæfingsfærð á Þröskuldum en mokstur er hafinn. Þæfingsfærð er um Klettsháls.

Vegir eru víðast greiðfærir á Norðurlandi eða aðeins í hálkublettum og einhver éljagangur. Hálka er á Öxnadalsheiði. Hálka er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi, hálkublettir eru á köflum á Austurlandi en hálka á Fjarðarheiði og á Oddsskarði. Vegir eru greiðfærir með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert