Ráðning menningarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar ólögmæt

Var ráðning menningarfulltrúarns árið 2012 talin ólögmæt.
Var ráðning menningarfulltrúarns árið 2012 talin ólögmæt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ráðning menningarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar í október 2012 var ólögmæt samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Maður sem sótti um starfið í ágúst 2012 stefndi bæjarfélaginu eftir að umsækjandi, sem að hans mati var ekki eins hæfur, var ráðinn í starfið. 

Dæmt var í málinu á fimmtudaginn og samkvæmt dómi er Seltjarnarnesbæ gert að greiða Óla Gneista Sóleyjarsyni 500 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar ráðningar í starf menningarfulltrúa bæjarins. Jafnframt var bæjarfélaginu gert að greiða eina milljón króna í málskostnað.

Í ágúst 2012 auglýsti bæjarfélagið laust til umsóknar starf menningarfulltrúa. Sagði meðal annars í starfsauglýsingunni að menningarfulltrúi væri yfirmaður Bókasafns Seltjarnarness og annarra málefna er tengdust menningarmálum. Gerð var m.a. krafa til háskólamenntunar og reynslu til þekkingar á menningarmálum.  Um starfið sóttu tuttugu og níu manns og var Óli Gneisti þar á meðal. Hann er með BA próf í bókasafns- og upplýsingafræðum, meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun, diplómapróf í opinberri stjórnsýslu og meistaragráðu í þjóðfræði. Var hann þar að auki forstöðumaður bókasafns Iðnskólans í Hafnarfirði er hann sótti um starfið. 

Þann 15. október 2012 var tilkynnt að Soffía Karlsdóttir hefði verið ráðin í starfið. Samkvæmt dómsgögnum er hún með meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun úr félagsvísinda- og hagfræðideild Háskólans á Bifröst. Taldi Óli Gneisti að fram hjá sér hefði verið gengið við ráðninguna þar sem hann uppfyllti fleiri menntunarskilyrði til starfsins en Soffía.

Við flutning málsins í héraðsdómi kom fram að við ráðningu Soffíu hafði verið litið á menntun hennar sem jafngilda menntun Óla og að Seltjarnarnesbær hafi svigrúm til þess að meta hvað sé jafngilt mál. 

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að í lögum sé þess ekki getið hvað átt sé við með jafngildu námi, en að ljóst þyki að hafa verði hliðsjón af því sem fram kemur um mikilvægi þess að starfsfólk hafi sem traustasta menntun sem hæfi verksviði bókasafna.

Í dómsgögnum kemur fram að engin frekari gögn liggi fyrir um hvað í náminu felist og að Seltjarnarnesbær hafi ekki sýnt fram á að ráðni umsækjandinn hafi lokið jafngildu námi og Óli Gneisti. 

Komst dómurinn því að þeirri niðurstöðu að ráðningin hafi verið ólögmæt.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert