Skilaði sér til Noregs eftir 16 ár

Flöskuskeytið sem skilaði sér til Noregs eftir 16 ára ferðalag.
Flöskuskeytið sem skilaði sér til Noregs eftir 16 ára ferðalag. Ljósmynd/Geir Ola Korsnes

Þegar Norðmaðurinn Geir Ola Korsnes kom að brakinu af bátnum sínum eftir að óveður hafði leikið hann illa, fann hann glæra flösku með svörtum tappa. Vakti flaskan athygli hans því inni í henni var bréf sem sent hafði verið frá Íslandi árið 1999, heilum 16 árum áður.

Bréfið var dagsett 1. apríl 1999 og var undirritað af 11 ára gömlum dreng að nafni Björgvin Matthías frá Skagaströnd. Korsnes tók mynd af flöskuskeytinu og setti á Facebook-síðu sína og reyndi þannig að hafa samband Björgvin. Bréfritari óskar einmitt eftir því í bréfinu að viðtakandi láti vita að skeytið hafi skilað sér. 

Korsnes þekkir nokkra Íslendinga sem hafa starfað hjá honum við verktakastörf og deildu þeir stöðuuppfærslunni þar til kunningi Björgvins taggaði hann. Staðfesti Björvin við Korsnes að hann væri höfundur bréfsins í gegnum Facebook.

Segist Korsnes aldrei hafa komið til Íslands, en hann þekki nokkra Íslendinga sem starfað hafa hjá honum og beri hann þeim söguna vel. „Það er ekki hægt að alhæfa neitt um alla Íslendinga, en þeir sem ég hef kynnst hafa verið harðduglegir vinnumenn og harðduglegir í að skemmta sér,“ segir Korsnes léttur í bragði.

Ómögulegt að vita neitt um ferðalag skeytisins

Ólíklegt er að Björgvin hafi á sínum tíma gert sér grein fyrir að flöskuskeytið myndi skila sér alla leið til Noregs. „Það er ómögulegt að vita hvert þetta skeyti hefur farið. Kannski hefur það komið við á Grænlandi, Færeyjum eða jafnvel í hafísnum á Norðurskautinu,“ segir Korsnes í samtali við mbl.is. 

Hann ræddi flöskuskeytið einnig við héraðsmiðilinn sinn í Noregi, Vestnytt. Þar segist hann mikill áhugamaður um það sem finna megi í fjörunni. „Það er margt skrýtið sem skilar sér upp í fjöruna þegar stormurinn geisar. Í eitt skipti fann ég rúðugler í heilu lagi sem ég gat notað. Það mætti segja að ég sé einhvers konar Askeladden hafsins,“ segir Korsnes. Hann vitnar þar í norska ævintýrið um Askeladden sem sigrast á hinum ýmsu erfiðleikum með skynsemi sinni og athyglisgáfum.

Korsnes býr á Tofterøy í Sund, skammt frá Bergen í Noregi. Það vill svo til að Bergen nefnist á íslensku Björgvin, líkt og höfundur bréfsins.

Geir Ola Korsnes.
Geir Ola Korsnes.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert