Slysum í fiskvinnslu fjölgar ört

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir

Vinnueftirlitið hefur gefið fjórum stórum fiskvinnslustöðvum hér á landi fyrirmæli um tafarlausar úrbætur. Flest þeirra tengjast öryggisbúnaði véla og tækja. Fyrirtækin fá stuttan frest til að verða við fyrirmælum Vinnueftirlitsins sem mun heimsækja þessar stöðvar aftur og ganga úr skugga um að úrbótum sé lokið á fullnægjandi hátt.

Í frétt á vef eftirlitsins segir að vinnuslysum í fiskvinnslu hafi fjölgað síðustu ár. Það sé algjörlega óviðunandi í upphafi 21. aldarinnar. Slysin tengist oft vélum og tækjum og algengast sé að fólk yngra en 25 ára slasist.

Vinnueftirlitið kallaði forsvarsmenn fiskvinnslunnar og verkalýðshreyfingarinnar til fundar 2013 og upplýsti um stöðuna.

Vorið 2013 var sent bréf til um það bil 200 fiskvinnslufyrirtækja með upplýsingum um ástandið og gátlisti til að fara yfir vinnuumhverfið. Í framhaldinu heimsótti Vinnueftirlitið 109 fyrirtæki. Í þessum heimsóknum voru gefin 394 fyrirmæli um úrbætur. Þetta skilaði ekki þeim árangri sem vonast var eftir, vinnuslysum í fiskvinnslu fækkaði ekki 2014, segir í frétt eftirlitsins.

Vinnueftirlitið ákvað í ársbyrjun 2015 að grípa til frekari aðgerða. Til að meta ástandið í greininni skoðaði teymi sérfræðinga í febrúar og mars ítarlega fimm stór fiskvinnslufyrirtæki í öllum landshlutum. Markmiðið var fyrst og fremst að skoða öryggisbúnað véla og tækja.

Niðurstaða þessara skoðana er að ástandið var mjög líkt á öllum stöðunum fimm. Grundvallaröryggisbúnaður véla og tækja hafi alltof oft ekki verið í lagi.

Nokkur dæmi:

  • Algengast var að öryggishlífar væru ekki til staðar, annað hvort höfðu þær aldrei verið settar upp eða fjarlægðar síðar
  • Færibönd voru opin og á þau vantaði oft neyðarstopp
  • Víða voru opnir öxlar og öxulendar
  • Ástand og umgengni við fiskikör var verulega ábótavant
  • Neyðarlýsing var ekki til staðar eða ófullnægjandi
  • Frystiklefar uppfylltu ekki lágmarks öryggiskröfur

„Vinnueftirlitið mun heimsækja fleiri fiskvinnslufyrirtæki á næstunni og verður tekið á þeim af festu ef öryggisbúnaður véla, tækja og vinnuverndarmál eru ekki í lagi. Það er algerlega óviðunandi í upphafi 21. aldarinnar að slysum í fiskvinnslu fjölgi. Fiskvinnslan þarf að taka sig á, öryggismál í fiskvinnslu verða ekki í lagi nema að fiskvinnslan vilji það sjálf,“ segir í frétt Vinnueftirlitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert