Snjórinn ekki á förum í bráð

Það er vetrarlegt um að litast víða á landinu. Myndin …
Það er vetrarlegt um að litast víða á landinu. Myndin er úr safni. mbl.is/Þórður

Svo virðist sem snjórinn muni ekki hverfa á braut í bráð, en Veðurstofan spáir snjókomu og él víða á landinu á morgun, sunnudag. Landsmenn þurfa því víst að bíða enn lengur eftir vorinu.

Það verður vetrarlegt um að litast á næstu dögum. Í kvöld er gert ráð fyrir fremur hægum vindi og verður úrkomulítið, en þó él á Vestjörðum og Norðurlandi. Á morgun er spáð norðaustan 10-18 m/s norðvestantil, annars hægari austlæg eða breytileg átt. Frost verður á bilinu núll til átta stig, kaldast fyrir norðan. Annað kvöldið verður vindurinn orðinn norðlægari og úrkomulítið sunnanlands.

Sjá veðurvef mbl.is

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru aðalleiðir á Suðurlandi mikið til auðar en nokkur hálka, krapi eða snjóþekja er sumstaðar á útvegum.

Það er hált á köflum á Vesturlandi og sumstaðar krap eða snjóþekja. Fróðárheiði er ófær.

Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljagangur. Steingrímsfjarðarheiði er þungfær.

Á Norðurlandi er hálka og snjóþekja við Húnaflóa og á Tröllaskaga en annars má segja að frá Skagafirði og austur úr sé víðast autt á láglendi þótt sumstaðar sé nokkur hálka á fjallvegum.

Hálkublettir eru yfir Möðrudalsöræfi og eins á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddskarði. Vegir eru annars greiðfærir á Austurlandi - og á Suðausturlandi vestur í Öræfi en þaðan eru hálkublettir vestur fyrir Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert