Álag ferðamanna of mikið á íslenska náttúru

Fjöldi Íslendinga sem telja að álag ferðamanna á íslenska nátturu …
Fjöldi Íslendinga sem telja að álag ferðamanna á íslenska nátturu sé of mikið hefur aukist. mbl.is/Golli

Niðurstöður liggja fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2014 og viðhorf þeirra til málefna ferðaþjónustunnar. Ferðamálastofa fékk MMR til að framkvæma könnunina í janúar síðastliðnum. Er þetta sjötta árið í röð sem könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun landsmanna er gerð með sambærilegum hætti.

Samkvæmt tilkynningu var afstaða landsmanna til þess hvað hið opinbera ætti að leggja áherslu á næstu fimm árin til að stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustunnar könnuð í rannsókninni. Um var að ræða opna spurningu og gátu svarendur nefnt allt að þrjú atriði en svörin voru greind eftir nokkrum efnisflokkum. Ríflega helmingur svarenda nefndi atriði varðandi innviði ferðaþjónustunnar, uppbyggingu, aðgengi og skipulag. Mörgum eða tæplega þriðjungi var gjaldtaka og skattamál ýmiss konar hugleikin, ríflega fjórðungur nefndi sitthvað í tengslum við aðkomu hins opinbera, eftirlit, stuðning, markaðsmál og menntun og fjórðungur atriði varðandi vegakerfi og samgöngur almennt. Annað sem nefnt var tengdist m.a. stýringu á fjölda og dreifingu ferðamanna, salernisaðstöðu, verðlagningu og náttúrupassa. 

Í könnuninni var jafnframt endurtekin spurning frá því í fyrra þar sem ferðamenn voru beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Fleiri voru á því að álag ferðamanna væri of mikið á íslenska náttúru í janúar í ár en á sama tíma í fyrra. Mun færri voru ennfremur á því í ár að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á íslenskri náttúru og íslenskri menningu. Færri voru ennfremur á því í ár að ferðaþjónusta hefði skapað eftirsóknarverð störf í heimabyggð en álíka margir voru á því í ár, og í fyrra að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem menn hefðu nýtt sér.

Samkvæmt tilkynningu frá Ferðamálastofu gefa niðurstöðurnar til kynna hversu ferðaglaðir Íslendingar eru. Nærri níu af hverjum tíu svarendum ferðuðust innanlands árið 2014 en um er að ræða svipað hlutfall og niðurstöður fyrri kannana Ferðamálastofu gefa til kynna. Farnar voru að jafnaði 6,6 ferðir, ívið fleiri en árið 2013 en þá voru farnar 5,7 ferðir. Dvalið var að jafnaði 15,7 nætur á ferðalögum innanlands árið 2014 eða álíka margar og árið 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert