Öðruvísi að leika í útvarpi en á sviði

Félagarnir Theodór og Ágúst fara með aðalhlutverkin í Elsku Míó …
Félagarnir Theodór og Ágúst fara með aðalhlutverkin í Elsku Míó minn. Styrmir Kári

Ágúst Beinteinn Árnason og Theodór Pálsson leika Míó og JúmJúm í fjölskylduleikritinu Elsku Míó minn. Verkið verður flutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 um páskana. Barnablað Morgunblaðsins hitti þá félaga og spurði þá spjörunum úr.   

Um hvað fjallar leikritið?
Ágúst: Leikritið er um strák sem heitir Búi Vilhelm Olson og er oftast kallaður Bússi. Hann þekkir ekki foreldra sína og hann elst því upp hjá fósturforeldrum sínum. Þau eru frekar vond við hann og honum líður ekkert alltof vel.
Hann finnur flösku og áður en hann veit af er hann staddur í landinu í fjarskanum. Þar heitir hann ekki lengur Búi heldur Míó.
Theodór: Í nýja landinu hittir hann föður sinn sem hann hefur aldrei hitt sem er konungur af landinu í fjarskanum.
Ágúst: Þar hittir hann allskonar fólk sem minna hann á fólkið úr gamla heiminum. Örlög hans eru  berjast við illa riddarann Kató.
Theodór: Hann hittir þar líka strák sem heitir JúmJúm og þeir verða bestu vinir. JúmJúm minnir Míó á Bengt, vin hans úr hinum heiminum.
Ágúst: Þetta eru semsagt tveir heimar en í öðrum heiminum líður honum miklu betur

Hvað leikið þið?
Theodór: Ég leik JúmJúm sem hét áður Bengt í hinum heiminum.
Ágúst: Og ég leik Míó sem áður hét Búi.

Hverjir leika í leikritinu Elsku Míó minn?
Ágúst: Ingvar E, Ólafur Darri, Þorsteinn Bachmann og fleiri gríðarlega farsælir og flottir leikarar. Við erum u.þ.b. 30 sem leikum. Laddi er þarna líka.
Gaman að vinna með öllu þessu fólki.

Hafið þið leikið áður?
Theodór: Við Ágúst lékum einmitt saman í Óvitunum.
Ágúst: Já, ég var vondi pabbinn og pylsusali.
Theodór: Svo er ég að talsetja hjá Stúdíó Sýrlandi. Hef einnig leikið í grínþættinum Drekasvæðið.
Ágúst: Ég er að leika í Línu langsokk í Borgarleikhúsinu. Ég hef líka verið að talsetja svolítið og verið í sönglist. Það kennir manni mjög mikið. Sönglist er frábær leið til að læra að leika. Um daginn var ég að leika í stuttmynd sem heitir Stattu með þér.
Theodór: Þetta er í fyrsta skiptið sem við leikum í útvarpi.

Er ekki dáldið öðruvísi að leika í útvarpi heldur en á sviði?
Theodór: Jú, í útvarpinu stöndum við fyrir framan tvo hljóðnema til að hafa þetta sem raunverulegast. Þeir sem eru að tala saman eru á sama tíma inni í hljóðverinu.
Ágúst: Þetta er mjög gaman. T.d. þegar við eigum að vera móðir þá lætur leikstjórinn okkur hlaupa upp og niður stiga til að ná fram réttu stemningunni.
Áheyrendurnir þurfa að hafa gott ímyndunarafl. Það skemmtilegasta við að hlusta á útvarpsleikrit er að maður getur ímyndað sér hvernig allt lítur út og ræður hvernig sagan og útlitið er.
Theodór: Það eru engir tveir sem sjá þetta eins fyrir sér.

Þarf maður að hafa eitthvað sérstakt í huga?
Theodór: Já, maður þarf að setja sig vel inn í karakterinn og halda einbeitingunni allan tímann.
Ágúst: Já, maður þarf að lifa sig 100% inn í þetta og tala mjög mjög skýrt og hafa hárréttar áherslur. Þess vegna þurfum við stundum að taka upp sama atriðið aftur og aftur. 

Hvenær verður þetta flutt?
Theodór: Þetta er leikið í þremur pörtum. Á föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum. Alla dagana kl. 15 á Rás 1.
Ágúst: Það er það skemmtilega við þetta, maður bíður spenntur eftir næsta þætti.
Theodór: Þetta er stærsta uppfærsla útvarpsleikhússins á þessu ári.

En hver eru áhugamálin ykkar?
Theodór: Körfubolti, leiklist og söngur.
Ágúst: Að leika. Ég æfi körfubolta. Og svo finnst mér gaman að syngja og rappa. Ég var að gefa út mitt fyrsta rappmyndband um daginn. Geri lúmskt grín að þessu öllu saman. Það hefur fengið mikil viðbrögð og hægt er að fletta því upp á Youtube. Hver veit nema ég taki einhvern tímann þátt í einhvers konar keppni?

Ég ætla einmitt að rappa í fermingar­athöfninni minni, en ég fermist borgaralega hjá Siðmennt 12. apríl.

Hvað ætlið þið að verða þegar þið verðið stórir?
Theodór: Mig langar mjög mikið að verða söngvari. Væri líka gaman að vera körfuboltamaður í NBA en held ég sé aðeins of lítill í það.
Ágúst: Leikari, lögfræðingur og/eða rappari. Ég elska fjölbreytni.

Eitthvað lokum?
Ágúst: Bara takk fyrir okkur og við hvetjum bara alla til að hlusta á leikritið. Þetta er geggjað skemmtilegt. Þegar öll eftirvinnslan er komin inn, öll hljóðin, þá finnst manni alveg eins og þetta sé í alvörunni.
Theodór: Þetta er fyrir alla fjölskylduna, allan aldur. Ekkert of barnalegt eða fullorðinslegt. Það geta allir hlustað.

Viðtalið má lesa í heild sinni í Barnablaðinu sem kom út um helgina. 

Við hittum Theodór og Ágúst sem taka þátt í uppfærslu Útvarpsleikhússins á fjölskylduleikritinu Elsku Míó minn. Verkið...

Posted by Barnablaðið on 27. mars 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert