Snjókoma á vestanverðu landinu

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Þórður

Búast má við viðvarandi snjókomu á vestanverðu landinu í dag, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Síðdegis mun hvessa og fer þá jafnframt að snjóa norðan- og austanlands. Má reikna með sannkölluðu hríðarveðri á Norðausturlandi og Austfjörðum í bæði kvöld og nótt.

Fylgjast má með veðurspánni á veðurvef mbl.is

Hálka er á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Þæfingsfærð er mjög víða á vegum á Suðurlandi eftir nóttina. Greiðfært er á Reykjanesbrautinni, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi er víða hálka, snjóþekja og éljagangur. Fróðárheiði er ófær.

Þá er snjóþekja víða á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljagangur. Þæfingsfærð er á sunnanveðum Vestfjörðum. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og óvíst með opnun þar í dag. Ófært er einnig á Kleifaheiði, Klettshálsi, Mikladal, Hálfdáni.

Á Norðurlandi er víða hálka og eitthvað snjóþekju og éljagang.

Hálkublettir eru yfir Möðrudalsöræfi og eins á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddskarði. Vegir eru annars greiðfærir á Austurlandi og á Suðausturlandi vestur í Öræfi en þaðan eru hálkublettir vestur fyrir Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert