Engin heimild til að leiða dómendur til skýrslugjafar

Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði í fyrra.
Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði í fyrra. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur staðfesti á föstudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í Aurum-málinu svokallaða, en héraðsdómur hafnaði beiðni verjenda sakborninga um að tveir af dómendum í sakamálinu skyldu gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur málsins fyrir Hæstarétti.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að það standi „engin heimild til að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar dómendur sakamáls til að beina til þeirra spurningum um meðferð þess. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.“

Verjendur sakborninga, þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lárusar Welding og Bjarna Jóhannessonar, vildu að teknar yrðu vitnaskýrslur af dómsformanni og meðdómsmanni sem sýknuðu þá fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.

Þeir vildu meðal annars að tekin verði skýrsla af meðdómsmanninum Sverri Ólafssyni sem saksóknari heldur fram að hafi verið vanhæfur í málinu. Sverrir er bróðir athafnamannsins Ólafs Ólafssonar sem var sakfelldur í Al Thani-málinu fyrr í þessum mánuði. Í kjölfar dómsuppkvaðningar í júní í fyrra sagði Sverrir í samtali við fréttastofu RÚV að hann tryði því ekki að sérstakur saksóknari hefði ekki vitað af tengslunum, en ummælin eru eftirfarandi:

„Ég trúi ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingafullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“

Saksóknari hefur farið fram á að Hæstiréttur ómerki dóminn vegna vanhæfis Sverris. Málflutningur fer fram fyrir Hæstarétti 13. apríl nk.

Jón Ásgeir, Lár­us, Bjarni og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son voru á síðasta ári sýknaðir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í málinu en sérstakur sak­sókn­ari fór fram á sex ára fang­elsi yfir Lár­usi og fjög­urra ára fang­elsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arn­ari og Bjarna. Magnús Arn­ar gegndi starfi fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs Glitn­is og Bjarni var viðskipta­stjóri sama banka. Lárus er fyrrverandi forstjóri Glitnis banka og Jón Ásgeir einn aðaleigandi bankans.

Ákæra sér­staks sak­sókn­ara snýst um fé­lagið Aur­um Hold­ings Lim­ited sem áður hét Goldsmiths, Mapp­in & Wepp og WOS. Í mál­inu voru ákærðir þeir Lár­us, Jón Ásgeir, Magnús Arn­ar og Bjarni fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um vegna sex millj­arða króna lán­veit­ing­ar Glitn­is banka til fé­lags­ins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjár­magna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aur­um Hold­ings Lim­ited.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert