Fékk skeyti frá forsetanum

Georg Breiðfjörð Ólafsson með skeytið
Georg Breiðfjörð Ólafsson með skeytið Myndina tók Þorbjörg Ágústsdóttir, barnabarn Georgs

„Ég óska þér og fjölskyldu þinni hjartanlega til hamingju með afmælið,” sagði í heillaskeyti sem Georg Breiðfjörð Ólafsson í Stykkishólmi fékk frá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands á fimmtudaginn, þegar Georg varð 106 ára, fyrstur íslenskra karla.

„Þú hefur lifað merkustu áfanga og helsta breytingaskeið í sögu Íslendinga. Það er mikil gæfa að verða vitni að slíkri vegferð þjóðar og geta á þessum háa aldri litið stoltur yfir farinn veg,“ segir ennfremur í skeytinu sem birt er á Facebooksíðunni Langlífi.

Sonur hans Ágúst Ólafur segir Georg vera heilsuhraustan og lífsglaðan. „Hann er mjög minnugur og fylgist vel með því sem er að gerast í kringum hann.“

Ekki vill Ágúst þakka mataræðinu langlífi föður síns, sem hann segir hafa verið mjög hefðbundið en lítið um grænmeti og ávexti. „Hann borðar þennan klassíska íslenska mat en hefur alltaf hugsað vel um heilsuna og aldrei unnið sér til óbóta.“ Georg býr á dvalarheimilinu í Stykkishólmi ásamt bróður sínum, sem er orðinn 100 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert