Grænir verði án gjalda

Raf­bíl­ar hafa rutt sér til rúms
Raf­bíl­ar hafa rutt sér til rúms mbl.is/Árni Sæberg

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að vistvænt eldsneyti, sem er framleitt hér á landi til ársins 2020, verði undanþegið öllum opinberum gjöldum og sköttum að virðisaukaskatti undanskildum.

Leggja þingmennirnir jafnframt til að nýjar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar, sem fluttar eru til landsins eða keyptar hér á landi til ársins 2020, verði undanþegnar opingerum gjöldum og sköttum, að virðisaukaskatti undaskildum að hluta, eða þar til 10% bílaflotans nýti vistvænta orkugjafa að öllu eða mestu leyti.

Þingmennirnir Katrín Júlíusdóttir, Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson, Oddný G. Harðardóttir og Guðbjartur Hannesson eru flutningsmenn tillögunnar.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að samkvæmt nýútkominni skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sé ástand loftslagsmála enn alvarlegra en áður hafi verið talið.

„Það sem áður var sterk vísbending er nú fullvissa um að styrkur koltvísýrings (CO2) í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið eins mikill í 800 þúsund ár. Líkön vísindamannanna spá fyrir um hrikalegar afleiðingar hlýnunar á lífsskilyrði mannkyns á þessari öld. Þjóðir heims verða samkvæmt skýrslunni að grípa til aðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Við Íslendingar getum og eigum að taka stór skref í að minnka losun loftslagsbreytandi efna á komandi árum og þar gegna aðgerðir í orkunýtingu samgöngutækja einu lykilhlutverkinu. Þessi aðgerð sem hér er lögð til er því mikilvægt skref í að búa til hvata til orkuskipta í samgöngum hér á landi,“ segir meðal annars í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert