Grásleppa ekki meiri síðan 2006

Grásleppa.
Grásleppa.

Stofnvísitala grásleppu hefur hækkað um 40% frá því í fyrra og hefur ekki verið hærri í níu ár. Vísitalan náði lágmarki árið 2013 en hefur hækkað tvö ár í röð og mælist nú 9,95. Þessar nýju tölur Hafannsóknastofnunar eru í samræmi við fréttir af góðum aflabrögðum við upphaf grásleppuverðtíðar.

Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að heildarafli verði hækkaður um tvö þúsund tonn og verði 6.200 tonn, að því er segir á vef stofnunarinnar.

Í fréttinni segir að hlutfall stórrar grásleppu (45-55 cm) sé þó áfram lágt, nú um 7% af fjölda fiska, en var um fjórðungur fiska í hrygningarstofni í upphafi stofnmælingarinnar árið 1985.

Þá er dreifing grásleppunnar í ralli í ár austlægari en í fyrra. Segir stofnunin líklegt að einhver hluti grásleppunnar sem var fyrir Austurlandi og austanverðu Norðurlandi þegar stofnmælingin fór fram muni dreifa sér víðar með ströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert