Keypti bílinn í góðri trú

Lögreglunni á Suðurlandi barst í síðustu viku ábending um bifreið sem væri ekki sú sem skráningarnúmerin tilheyrðu. Við skoðun kom í ljós að búið var að afmá rétt verksmiðjunúmer og koma öðru fyrir af sambærilegri bifreið. Núverandi eigandi hafði keypt bifreiðina í góðri trú og hafði ekki grun um svikin. Málið er í rannsókn.

Eigandi sumarhúss við Sogsbakka í Grímsnesi fékk á laugardagskvöldið boð í farsíma um að brotist hafi verið inn í sumarbústaðinn. Hann fór þegar á staðinn og sá strax ummerki um innbrot. Ýmsum munum var stolið svo sem flatskjá, fatnaði og fleiru. Þeir sem hafa orðið varir óeðlilegar mannaferðir á umræddum tíma eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444 2010.

Aðfaranótt sunnudags veittu lögreglumenn athygli bifreið sem var ekið um Hrunamanna- og Skeiðaveg við Sandlækjarholt. Ökumanni var gefið stöðvunarmerki. Hann stöðvaði bifreiðina og um leið stukku tveir men út úr bifreiðinni og hurfu út í myrkrið. Annar þeirra fannst skömmu síðar í felum í útihúsi á bæ skammt frá. Skömmu síðar fannst hinn á gangi á þjóðveginum. Báðir mennirnir voru handteknir og yfirheyrðir á lögreglustöð. Blóðsýni var tekið frá báðum mönnunum og er beðið niðurstöðu rannsóknar á þeim.

Í síðustu viku voru 29 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Erlendir ferðamenn voru þar í meirihluta. Um helgina hafði lögregla afskipti af fimm ökumönnum vegna gruns um ölvunarakstur og einum ökumanni sem talið var að hefði verið undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert