Seldu 5,5 milljónir gistinætur

Ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt á Íslandi en aukningin er …
Ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt á Íslandi en aukningin er 80% á fimm árum. mbl.is/Styrmir Kári

Seldar gistinætur voru 5,5 milljónir hér á landi árið 2014 og fjölgaði um tæp 21% frá fyrra ári. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 80% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði um 25% frá fyrra ári en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6%.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 60% allra gistinátta, 17% gistinátta voru á tjaldsvæðum og 23% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum á milli ára. Sem fyrr voru flestar gistinætur á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallslega fjölgaði gistinóttum þó mest á Vestfjörðum og Suðurnesjum, segir í frétt Hagstofu Íslands.

83% aukning á fimm árum

Mikil aukning hefur orðið á seldum gistinóttum undanfarin ár. Þannig hefur heildarfjöldi gistinátta aukist um 2,5 milljónir eða um 83% á síðastliðnum fimm árum. Samhliða fjölgun gistinátta hefur framboð gistirýmis vaxið mjög á undanförnum árum. Þrátt fyrir mikla aukningu á framboði hefur nýting gistirýmis einnig aukist. Heildarnýting herbergja á hótelum og gistiheimilum var 57,1% á síðasta ári en var 43,5% árið 2010.

Bretar keyptu flestar gistinætur hér á landi í fyrra en gistinætur þeirra voru 828.869 og fjölgaði um 45% frá árinu 2013. Gistinætur Þjóðverja voru næstflestar, 737.655, en það er aukning um 20% frá fyrra ári. Gistinætur Bandaríkjamanna voru 705.858 sem er töluverð aukning frá fyrra ári eða 47%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert