Snjókoma og skafrenningur í kvöld

mbl.is/Malín Brand

Búast má við norðanátt og snjókomu og skafrenningi um norðaustan og austanvert landið í dag og fram á kvöld, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Sjá veðurvef mbl.is.

Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum en annars er nokkur hálka eða hálkublettir á Suðurlandi, einkum útvegum og sumstaðar er jafnvel þæfingur eða þungfært á sveitavegum. Flughált er á kafla undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er víða hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja á Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.

Hálka eða snjóþekja er á  flestum vegum á Vestfjörðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Það er víðast hvar hálka eða snjóþekja á Norðurlandi og éljagangur nokkuð víða, einkum á Norðausturlandi. Skafrenningur er á Vatnsskarði og á fjallvegum fyrir austan Eyjafjörð. Þæfingsfærð er á Hólasandi.

Á Austurlandi er víða hálka eða snjóþekja á vegum og skafrenningur og blint á fjallvegum. Þungfært og skafrenningur er nú á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra og þæfingsfærð og snjókoma á Borgarfjarðarvegi.  Á Fagradal er hálka og einnig skafrenningur og snjóþekja á Oddskarði. Hálka eða hálkublettir eru með suðausturströndinni og skafrenningur nokkuð víða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert