Öllum verði tilkynnt um upptöku samtala

mbl.is/Kristinn

Hnykkt verður á ákvæði um að fjölmiðlafólki beri að tilkynna viðmælendum sérstaklega í upphafi samtals að verið sé að taka upp samtal þeirra verði frumvarp þess efnis að lögum. Sigríður Andersen og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks, eru flutningsmenn frumvarpsins en í því kemur fram nánari útlistun á ákvæði í 1. mgr. 48. gr. fjarskiptalaga um að aðila að símtali, sem hljóðrita vill símtal, beri að tilkynna viðmælanda í upphafi símtalsins að það sé tekið upp. Í 2. mgr. greinarinnar er á hinn bóginn kveðið á um að ekki þurfi að tilkynna um upptökuna þegar ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. „Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að ríkari kröfur verði gerðar um að ljóst sé að viðmælandanum sé kunnugt um hljóðritunina. Þá verður með breytingunni sérstaklega kveðið á um að óheimilt sé að birta slíka hljóðritun opinberlega að hluta eða í heild,“ segir í greinargerð.

Í kjölfar þess að fjarskiptalögin voru samþykkt árið 2003 sendi Blaðamannafélag Íslands frá sér tilkynningu þess efnis að öll samtöl blaðamanna við viðmælendur kunni að vera hljóðrituð. Í samræmi við 2. mgr 48. gr. laganna hafa fjölmiðlamenn litið svo á að þeir hafi heimild til upptöku án þess að tilkynna það í hvert sinn sem samtal fer fram.

„Með frumvarpinu er eins og áður segir gert ráð fyrir að undantekningarreglan verði þrengd frá því sem nú er, þannig að enn ríkari krafa sé gerð um að ljóst sé að viðmælanda sé fullkunnugt um upptökuna,“ segir í greinargerðinni.

Taka af öll tvímæli

Sigríður Andersen segir að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu árið 2006 að fjölmiðlamönnum beri að tilkynna að samtöl séu tekin upp og að skilningur þeirra um að svo sé ekki sé rangur. „Tilgangur frumvarpsins er að taka af öll tvímæli um það að hafi menn tekið upp símtal, án þess að hafa tilkynnt mönnum það, þá sé ekki heimilt að vitna í það eða birta það. Mönnum á að vera tilkynnt sérstaklega um það ef nýta á samtalið í þeim tilgangi,“ segir Sigríður. Hún telur að með þessu sé skerpt á réttarstöðu hins almenna borgara. „En þetta er einnig til þess að skerpa á framkvæmdinni hjá fjölmiðlamönnum. Ég tel að fjölmiðlum sé engin vorkunn í því að tilkynna mönnum í upphafi símtals hvort það sé hljóðritað eða ekki,“ segir Sigríður.

Hægt að taka upp hótanir

Í frumvarpinu er jafnframt tilgreind undantekning á 1. málsgreininni um hljóðritun símtala. Við bætist málsgrein þar sem segir að heimilt sé að hljóðrita samtal ef sá sem tekur upp samtalið hefur rökstuddan grun um að viðmælandinn muni í símtalinu hafa í hótunum sem brjóti í bága við greinar 199, 232 og 233 a og b almennra hegningarlaga. Sigríður segir að ekki hafi verið neitt ákvæði í lögum sem heimili þetta beint. „Þetta ákvæði er hugsað fyrir lögregluna. Hingað til hefur vantað beinlínis pósitíva heimild sem heimilar þetta,“ segir Sigríður. „Ákæranda er heimilt að leggja upptökuna fram í sakamáli sem er höfðað vegna brota á þessum lagagreinum. Önnur not upptökunnar eru óheimil,“ segir í málsgreininni sem bætist við 48. gr. fjarskiptalaga um hljóðritun símtala.

Skilur ekki tilganginn

„Það er fráleitt að gera ríkari kröfur um þetta mál því um leið og blaðamaður kynnir sig sem blaðamann þá er það ljóst að hann er að hringja í þeim erindagjörðum að afla frétta,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. „Tilgangur upptökunnar er að hafa rétt eftir og það er enginn munur á því að taka upp samtal eða punkta það niður. Munurinn er eingöngu sá að það er öruggara að taka upp þannig að það sé rétt haft eftir. Ég átta mig ekki á tilgangi þessara lagasetningar og á öllum mínum blaðamannaferli þá varð ég ekki var við það að fólk væri ósátt við það að samtöl væru tekin upp í þeim tilgangi að farið væri rétt með,“ segir Hjálmar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert