Undirrita nýjan raforkusölusamning

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsvirkjun og PCC BakkiSilicon hf. hafa undirritað nýjan samning um sölu rafmagns til kísilmálmverksmiðju sem PCC BakkiSilicon hf. áformar að reisa á Bakka við Húsavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi árið 2017 og framleiði í fyrsta áfanga allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og noti 58 MW af afli, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Nýi rafmagnssamningurinn er efnislega svipaður og fyrri rafmagnssamningur félaganna frá árinu 2014 en með nokkrum frávikum þó. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í desember síðastliðnum að hefja skoðun á fyrri rafmagnssamningi aðila frá 2014. Þeim rafmagnssamningi hafa samningsaðilar sameiginlega rift enda ýmis skilyrði samningsins óuppfyllt og tímaákvæði hans ekki lengur raunhæf. Fyrri samningur aðila frá 2014 er því ekki lengur til staðar sem gildur samningur. Nýi rafmagnssamningurinn var tilkynntur til ESA í dag,“ segir í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að stjórnendur fyrirtækisins séu sannfærðir um að kísilmálmiðnaður muni dafna á Íslandi til langs tíma.

„Samstarf okkar við Landsvirkjun hefur verið traust og með nýjum raforkusölusamningi er mikilvægum áfanga náð. Við teljum fyrsta flokks aðstæður vera fyrir hendi á Bakka á Íslandi til að byggja og reka kísilmálmverksmiðju okkar,“ er haft eftir Peter Wenzel, stjórnarmanni í PPC BakkaSilicon hf., sem leiðir verkefnið fyrir hönd fyrirtækisins.

Samningurinn er undirritaður með nokkrum fyrirvörum sem uppfylla þarf fyrir mitt sumar, t.d. lok samninga við aðra aðila og að ESA geri ekki athugasemdir við efnisatriði hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert