Vill heildarstefnu um æskulýðsrannsóknir

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ljósmynd/Ríkisendurskoðun

Einkahlutafélagið Rannsóknir og greining hefur undanfarin 16 ár fengið samtals 158 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði vegna margvíslegra æskulýðsrannsókna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun. Þar segir að stofnunin geri athugasemdir við það með hvaða hætti mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi staðið í viðskiptum við félagið en stærstur hluti fjármunanna hafi komið frá því og stofnunum þess. 

Ennfremur segir að stofnunin telji að mennta- og menningarmálaráðuneytið þurfi að vanda betur gerð samninga sem það geri um styrki og kaup á vörum og þjónustu. Móta þurfi heildarstefnu um æskulýðsrannsóknir og kanna hvort hafa megi styrki til þeirra í sérstökum sjóði í umsjá Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís). Tekið er fram að gagnrýnin beinist ekki að störfum Rannsókna og greiningar. Niðurstöður rannsókna félagsins fyrir stjórnvöld hafi komið mörgum til góða og ekkert bendi til annars en að rannsóknunum hafi verið sinnt með faglegum hætti.

„Þrátt fyrir þetta telur Ríkisendurskoðun erfitt að meta hvort fjárframlög ríkissjóðs til þeirra hafi skilað fullnægjandi árangri þar sem hvergi er kveðið á um markmið rannsóknanna og hvernig meta skuli árangur þeirra. Stofnunin hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið því til að móta heildarstefnu um æskulýðsrannsóknir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert