Andlát: Helgi Eysteinsson verslunarmaður

Helgi Eysteinsson.
Helgi Eysteinsson.

Helgi Eysteinsson verslunarmaður lést þriðjudaginn 31. mars sl. á hjúkrunarheimilinu Eir, 89 ára að aldri.

Helgi fæddist í Reykjavík 30. maí 1925. Hann var sonur hjónanna Matthildar Helgadóttur frá Flateyri og Eysteins Jakobssonar frá Hraunsholti í Garðahreppi.

Að skólagöngu lokinni hóf Helgi störf hjá versluninni Geysi sem sendill. Hann starfaði þar alla sína starfsævi, eða í 53 ár, og síðustu áratugina sem framkvæmdastjóri. Helgi var áberandi í Kvosinni og setti svip á borgarbraginn. Þeir Reykvíkingar sem nú eru komnir á efri ár kannast því eflaust margir hverjir við Helga í Geysi.

Ungur að árum hóf hann að leika knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Víkingi og lék fjöldann allan af leikjum fyrir meistaraflokk félagsins. Helgi lék einn landsleik fyrir Íslands hönd árið 1949. Hann átti sæti í landsliðsnefnd KSÍ á árunum 1960-1962.

Helgi sat í sóknarnefnd Bústaðakirkju um árabil. Hann var gjaldkeri sóknarnefndar allan þann tíma sem kirkjan var í byggingu. Helgi var mjög stoltur af því enda stórhuga framkvæmd á þeim tíma.

Helgi var félagi í Frímúrarareglunni frá 1959 til dauðadags.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Kristín Jónsdóttir. Börn þeirra eru: Jóna (f. 1942), Eysteinn (f. 1948), Matthildur (f. 1950) og Guðleif (f. 1956). Barnabörn þeirra eru tíu talsins og barnabarnabörnin eru fjórtán.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert