Ekki refsivert að kafa í Silfru án leyfis

Kafað í Silfru á Þingvöllum. Mynd úr safni.
Kafað í Silfru á Þingvöllum. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Hæstiréttur hefur sýknað mann sem var ákærður fyrir kafa í gjánni Silfru á Þingvöllum án þess að tilkynna köfunina og afla tilskilins leyfis frá þjóðgarðinum. Hæstiréttur segir að það skorti lagastoð fyrir því að maðurinn hefði unnið sér til refsingar með háttsemi sinni.

Þrír dómarar dæmdu í málinu. Þeir segja að í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum sé hvergi að finna heimild til að mæla fyrir um köfun í þjóðgarðinum í almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

Lögreglustjórinn á Selfossi ákærði manninn í september 2013 fyrir brot á reglum um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Fram kemur, að maðurinn hafi síðdegis föstudaginn 24. maí 2013 kafað í gjánni Silfru innan þjóðgarðsins á Þingvöllum í Árnessýslu, án þess að tilkynna köfunina og afla tilskilins leyfis frá starfsmönnum þjóðgarðsins.  Var háttsemi hans talin varða við ákvæði reglna nr. 214/2013 um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sbr. lög nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Héraðsdómur Suðurlands felldi sinn dóm í málinu í maí í fyrra. Þar viðurkenndi maðurinn skýlaust að hann hefði kafað í gjánni. Dómari komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að viðhlítandi lagastoð skorti fyrir því að maðurinn hefði unnið til refsingar með háttseminni og var hann því sýknaður. 

Í júní í fyrra skaut ríkissaksóknari málinu til Hæstaréttar sem hefur nú einnig sýknað manninn.  

Hæstiréttur segir í sinni niðurstöðu, að í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sé hvergi að finna heimild til að mæla fyrir í almennum stjórnvaldsfyrirmælum um köfun í þjóðgarðinum. Skorti því lagastoð fyrir að maðurinn hafi unnið sér til refsingar með háttsemi sinni. Þegar af þeirri ástæðu var hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert