Hvalfjarðargöng lokuð vegna malbikunar

Malbikað í Hvalfjarðargöngum.
Malbikað í Hvalfjarðargöngum. Af vef Spalar

Hvalfjarðargöng verða lokuð vegna malbikunar frá föstudagskvöldi 10. apríl til mánudagsmorguns 13. apríl. Önnur akreinin var malbikuð enda á milli í göngunum í október 2014 og þá voru göngin lokuð eina helgi. Komið er nú að hinni akreininni, síðari hluta framkvæmdanna.

Lokunin gildir frá því kl. 20 föstudagskvöldið 10. apríl til kl. 6 að morgni mánudags 13. apríl.

Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas annast verkið og hefst handa við að fræsa um leið og göngunum verður lokað, segir í frétt Spalar um málið. Sami verktaki sá um malbikun í október eftir útboð. Þá var akreinin frá norðri til suðurs tekin fyrir, alls um 6 km. Nú er komið að akreininni frá suðri til norðurs.

Í verksamningi er gert ráð fyrir því að verktaki hliðri til, eins og mögulegt er, og hleypi forgangsumferð í gegn á meðan á framkvæmdum stendur (á við sjúkralið, slökkvilið og lögreglu). Önnur umferð er óheimil.

Óhjákvæmileg óþægindi

Aðstandendur Hvalfjarðarganga og malbikunarverkefnisins gera sér ljósa grein fyrir því að lokun ganganna heila helgi skapar óþægindi fyrir ýmsa vegfarendur og viðskiptavini Spalar. Það er hins vegar óhjákvæmileg afleiðing svo umfangsmikilla framkvæmda að þær komi illa við fólk sem annars hefði farið um göngin á þessum tíma, segir frétt á vef Spalar.

Þegar fulltrúar Spalar og verktakans veltu tímasetningu fyrir sér var niðurstaðan sú að best væri að ljúka verkinu sem fyrst eftir páska. Ekki er malbikað að vetrarlagi en vonir standa til þess að nú vori loksins og þá er tækifærið gripið, áður en umferð eykst enn frekar.

  • Framundan eru nokkrar „langhelgar“, þ.e. frídagar sem margir leggja við helgarnar, taka sér frí milli „rauðra daga“ og helga og verða á faraldsfæti. Í apríl er þannig sumardaginn fyrsti og þar á eftir koma 1. maí, uppstigningardagur og hvítasunna.
  • Það er því ekki margra helga kostur í stöðunni og helgin 10.-13. apríl þykir einfaldlega ákjósanlegur tími til malbikunarframkvæmda.
  • Ekki er í myndinni að fresta aðgerðum til hausts.

Þegar Hvalfjarðargöng voru opnuð í júlí 1998 var reiknað með að endurnýja þyrfti slitlag á akreinum þar eftir fimm til sjö ár en endingin varð í reynd sextán til sautján ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert