Hvar er opið um páskana?

Ekki þarf að örvænta þó páskaeggið gleymist, í það minnsta …
Ekki þarf að örvænta þó páskaeggið gleymist, í það minnsta ekki ef maður býr í höfuðborginni. mbl.is/Styrmir Kári

Nú þegar páskahátíðin gengur í garð riðlast hefðbundnir afgreiðslutímar verslana og skemmtistaða. Mbl.is tók saman helstu opnunartíma yfir páskana 2015 til þess að enginn þurfi að standa svekktur fyrir utan Kaffibarinn á föstudaginn langa eða sitja uppi með morgunkorn í páskamatinn.

Skemmtistaðir

Í nótt, aðfararnótt 2. apríl, eru skemmtistaðir opnir til kl. 03:00 eða 4:30 samkvæmt leyfi. Á morgun, skírdag mega skemmtistaðir vera opnir til miðnættis þegar föstudagurinn langi gengur í garð. Skemmtistaðirnir mega hinsvegar opna aftur á miðnætti, sólarhring síðar og vera opnir til kl. 3:00 eða 4:30 samkvæmt leyfi, aðfararnótt 4. apríl.

Laugardaginn 4. apríl mega skemmtistaðirnir vera opnir allt til kl. 03:00 aðfararnótt páskadags. Á sjálfan páskadag er lokað í bænum en opna má skemmtistaðina á miðnætti og verða þeir opnir til kl. 03:00 eða 4:30, samkvæmt leyfi. Mánudaginn 6. apríl, annan í páskum, er opið til 01:00.

Vínbúðir

Vínbúðir eru opnar í dag, 1. apríl, eins og um föstudag væri að ræða. Á höfuðborgarsvæðinu verður opið til klukkan 19 og til klukkan 20 á Dalvegi, Skútuvogi og Skeifunni. Lokað verður í öllum Vínbúðum á skírdag og föstudaginn langa en hefðbundinn opnunartími verður laugardaginn 4. apríl. Lokað er í vínbúðum á páskadag enda er hann á sunnudegi. 

Matvöruverslanir

Opið er í flestum stærri matvöruverslunum á skírdag, laugardaginn 4. apríl og annan í páskum. Föstudaginn langa og á páskadag er hinsvegar annað upp á teningnum og flest lokað en þó er opið í verslunum Krónunnar í Nóatúni 17 og við Hvaleyrarbraut frá 10 til 21. Þín verslun Seljabraut verður opin milli kl. 12 og 21 föstudaginn langa.

Sund

Opið er í Ásgarðslaug, Laugardalslaug, Sundlaug Kópavogs og Vesturbæjarlaug bæði föstudaginn langa og páskadag. Einhverjar lokanir eru aðra daga páskahátíðarinnar en á landsbyggðinni er þó víða opið yfir alla páskana og má kynna sér opnunartíma hverrar laugar fyrir sig með því að smella hér.

Aðrar skemmtanir

Meðal þess sem undanþegið er lögum um helgidagafrið á föstudaginn langa og páskadag má nefna listsýningar, tónleika, leiksýningar og kvikmyndasýningar eða sams konar sýningar. Flest kvikmyndahús landsins hafa eru t.a.m. með myndir í sýningum þessa daga og eitthvað er um tónleikahald en sem dæmi um það má nefna tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður sem fram fer á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert