Kjaradeila hjúkrunarfræðinga til ríkissáttasemjara

Hjúkrunarfræðingar á vakt.
Hjúkrunarfræðingar á vakt. mbl.is/Golli

Í dag vísaði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga kjaraviðræðum sínum við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til ríkissáttasemjara.

Í frétt á vef félagsins segir að það sé mat samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í samráði við stjórn Fíh að ekki náist árangur í viðræðum félagsins við samninganefnd ríkisins (SNR) án aðkomu ríkissáttasemjara. Í viðræðuáætlun aðila í síðasta kjarasamningi var getið þess að hafi samningar ekki náðst á milli þeirra fjórum vikum fyrir lok gildandi kjarasamnings yrði tekið ákvörðun um hvort viðræðunum yrði vísað til ríkissáttasemjara.

„Á síðasta samningafundi kom bersýnilega í ljós að mikið ber á milli þeirra krafna sem Fíh hefur lagt fram og því sem SNR telur sig geta boðið á móti. Samninganefnd tilkynnti því SNR að viðræðunum yrði vísað til Ríkissáttasemjara og hreyfði SNR engum mótbárum við því,“ segir í frétt félagsins.

Það er markmið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að laun hjúkrunarfræðinga verði samkeppnishæf við laun annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. „Gera þarf hjúkrunarfræði að raunhæfum valkosti fyrir ungt fólk sem nú stendur frammi fyrir því að velja sér framtíðar starfsvettvang. Ekki er síður mikilvægt að lagfæra laun hjúkrunarfræðinga til að tryggja það þeir velji að halda áfram að starfa innan hjúkrunar á Íslandi en telji ekki hagi sínum betur borgið í öðrum störfum utan heilbrigðiskerfisins eða á erlendri grundu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert