Léttskýjað en kalt í dag

Kalt en bjart verður á landinu í dag.
Kalt en bjart verður á landinu í dag. mbl.is/Golli

Í dag er gert ráð fyrir minnkandi norðlægri átt og ofankomu á landinu. Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands er spáð vindstyrk um 5-13 metrum á sekúndu og léttskýjuðu veðri. Er þó gert ráð fyrir dálitlum éljum Norðanlands. Verður frost tvö til átta stig.

Á morgun, skírdag, er gert ráð fyrir austan átt, 10 til 15 metrum á sekúndu með suðurströndinni en annars 5 til 10 metrum á sekúndu og hæg breytilegri átt um landið norðaustanvert. Verður víða bjart með köflum, en skýjað og stöku él sunnanlands og samfelldari slydda eða snjókoma þar um kvöldið og bætir í vind. 

Á föstudaginn langa er spáð suðaustan átt, 10 til 18 metrum á sekúndu framan af degi og snjókomu, slyddu eða rigningu. Heldur hægari og úrkomu minna verður þó norðaustanlands. Um kvöldið er gert ráð fyrir sunnan átt, 8 til 13 metrum á sekúndu og rigningu eða slyddu í flestum landshlutum. 

Fer veðri hlýnandi eftir föstudaginn en á laugardag er spáð sunnan átt, 8 til 15 metrum á sekúndu og rigningu eða súld með köflum. Bjart verður á Norður- og Austurlandi. Má gera ráð fyrir að hiti verði fimm til ellefu stig, hlýjast norðaustan lands. 

Á páskadag er gert ráð fyrir sunnan og suðvestan átt, 8 til 13 metrum á sekúndu og rigningu eða slyddu. Úrkomulítið verður  þó um landið austanvert og hiti tvö til níu stig, hlýjast á Austurlandi. 

Á annan í páskum er útlit fyrir stífa suðvestlæga átt og rigningu eða slyddu með köflum, en þurrt austan til á landinu. Hiti breytist lítið.

Sjá veðurvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert