Nýr Landspítali í Efstaleiti?

Forsætisráðherra segir skynsamlegt að skoða að byggja nýjan Landspítala á …
Forsætisráðherra segir skynsamlegt að skoða að byggja nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir ástæðu til að kanna hvort skynsamlegt sé að reisa nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. Þetta kom fram í seinni fréttum RÚV í kvöld.

Ráðherrann segir að forsendur fyrir staðarvali nýja spítalans við Hringbraut hafi breyst mikið á síðustu misserum. Þá hafi fasteignaverð hækkað mjög, ekki síst í miðbænum og nágrenni spítalans.

„Það auðvitað breytir forsendum töluvert,“ sagði Sigmundur Davíð í samtali við RÚV. „Og menn ættu að minnsta kosti að skoða það, það er þess virði að reikna, þó ekki væri nema á servíettu, hvort það kunni að vera skynsamlegt í stöðunni núna að selja bara fasteignir Landspítalans við Hringbraut, og lóðirnar og byggingaréttinn þarna í kring, ná þannig inn jafnvel tugum milljarða strax, sem hægt væri að nota til þess að setja uppbyggingu nýs spítala alveg á fullt á nýjum stað.“

Ráðherrann sagði að mikið af þeirri vinnu sem þegar hefði verið lögð í nýja spítalann myndi nýtast þótt staðsetningu hans yrði breytt. Þá gætu spítalabyggingarnar við Hringbraut jafnvel nýst sem hótel.

„Svo hefur auðvitað eitt gerst í viðbót sem gæti komið þarna við sögu og það eru áform um að selja lóð Ríkisútvarpsins, og jafnvel hús Ríkisútvarpsins, og það hefur verið bent á að það gæti verið mjög hentug staðsetning fyrir Landspítalann,“ sagði Sigmundur Davíð. „Og um leið væri hægt að leysa úr vanda Ríkisútvarpsins sem gæti til dæmis farið í grennd við miðbæinn.

Nú með því móti haldast þessi nánu tegnsl við flugvöllinn, en það skapast líka náin tengsl við Borgarspítalann gamla, sem er þarna þá beinlínis við hliðina á uppbyggingunni og verður hluti af nýrri stórri heild. Jafnvel er hægt að sjá fyrir sér einhverjar neðanjarðartengingar þarna undir veginn og nýta þær lóðir sem enn eru lausar í kringum Borgarspítalann að auki,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert