Reist verði viðbygging við Alþingi

Upphaflega viðbyggingin séð frá suðri.
Upphaflega viðbyggingin séð frá suðri. mbl.is

Viðbygging við Alþingishúsið byggð á teikningum Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, verður reist sunnan við þinghúsið samkvæmt þingsályktunartillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn. Er framkvæmdunum ætlað að vera liður í að minnast þess árið 2018 að öld veður þá liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. „Þannig mun eitt fegursta hús Guðjóns Samúelssonar loks rísa, hús í sígildum stíl sem mikil prýði verður að til framtíðar.“

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að þetta þýddi að lokið yrði við að reisa viðbyggingu sem hugmyndir hafi verið um að risi á fullveldisárinu 1918 en ekkert hafi hins vegar orðið af vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem þá hafði geisað árin á undan, og fjárskorts. Lengi hafi verið uppi fyrirætlanir um að leysa úr húsnæðisskorti Alþingis en skrifstofur þingsins séu í dag í leiguhúsnæði í allmörgum byggingum í nágrenni Austurvallar. Samkvæmt athugunum sé talsverð hagkvæmni fólgin í því fyrir Alþingi og ríkissjóð að reist verði bygging á umræddum reit, sem þingoð hafi til ráðstöfunar, og koma þar fyrir allri starfsemi þingsins.

Hugsað upphaflega fyrir Alþingi og Háskóla Íslands

Rifjað er upp að á þessum tíma hafi Alþingishúsið einnig hýst starfsemi Háskóla Íslands og að hugmyndin hafi verið að viðbyggingin þjónaði einnig því hlutverki. Leyst hafi verið úr húsnæðismálum háskólans á síðustu öld og með þessum framkvæmdum yrði starfsemi Alþingis loks öll í eigin húsnæði. Gert er ráð fyrir að samkeppni verði haldin meðal arkitekta um hönnun hússins og tengibygginga að öðru leyti. „Þannig fá íslenskir arkitektar samtímans tækifæri til að hanna hús með Guðjóni Samúelssyni. Með því vinna kynslóðir fullveldisstofnunarinnar með kynslóðum samtímans við uppbyggingu til framtíðar.“

Fleira er fjallað um í þingsályktunartillögu forsætisráðherra til þess að minnast aldarafmælis fullveldisins. Þannig er lagt til að Valhöll verði endurreist á Þingvöllum en fyrri bygging með því nafni brann árið 2009. Þar verði gert ráð fyrir veitingaaðstöðu, ferðamannamóttöku og aðstöðu fyrir bæði þjóðgarðsvörð og Þingvallanefnd auk sals þar sem Alþingi geti haldið fundi við hátíðleg tilefni og aðstöðu fyrir sýningahald. Hversu mikið svigrúm verði fyrir gistirými verði hins vegar að ráðast af aðgengi að húsinu segir í greinargerðinni.

Tryggt verði að ný Valhöll falli vel að umhverfinu

„Við hönnun nýrrar Valhallar verður þess gætt að húsið falli vel að umhverfinu og taki mið af byggingarsögu á staðnum, Þingvallabænum og gömlu Valhöll. Jafnframt verður tryggt að náttúra Þingvalla bíði ekki skaða af framkvæmdunum,“ segir ennfremur. Sömuleiðis er með þingsályktunartillögunni „stefnt að því að nýbygging yfir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verði látin marka þau tímamót sem verða 2018, eins konar þjóðargjöf af þessu þýðingarmikla tilefni.“

Ennfremur er gert ráð fyrir að sérstakur hátíðarfundur Alþingis verði haldinn á Þingvöllum 18. júlí 2018 þegar öld verður frá því að samkomulag náðist á milli Íslendinga og Dana um fullveldi Íslands og að ríkisstjórninni verði faldið að efna til hátíðarhalda 1. desember það ár. Þá verði forseta Alþingis falið í samvinnu við forsætisnefnd þingsins og formenn þingflokka „að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og um inntak þess fullveldis er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918.“

Upphaflega viðbyggingin séð frá austri.
Upphaflega viðbyggingin séð frá austri. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert