Skaðinn kann að verða umtalsverður

Formaður Læknafélags Íslands leggst gegn áfengisfrumvarpinu.
Formaður Læknafélags Íslands leggst gegn áfengisfrumvarpinu. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Engin skynsamleg rök eru fyrir því að breyta núverandi fyrirkomulagi á áfengissölu en skaðinn sem kann að hljótast af ótímabærum breytingum og auknu aðgengi gæti verið umtalsverður. Þetta skrifar Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Í grein sinni sem nefnist „Áfengissölu í matvöruverslanir, NEI TAKK!“ fjallar Þorbjörn um áfengisfrumvarp sem fjallað hefur verið um á Alþingi í vetur en það kveður á um að smásala á áfengi verði færð til smásöluverslana með takmörkunum. Þorbjörn bendir á að embætti landlæknis, Félag lýðheilsufræðinga, Barnaverndarstofa, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, umboðsmaður barna og margir fleiri leggist gegn þeim breytingum á áfengissölulöggjöfinni sem lagðar hafa verið til. Meginröksemdin sé að rýmkaðar reglur auki sýnileika áfengis og aðgengileika og það muni auka neyslu og þann skaða sem af drykkju hlýst.

Þá bendir Þorbjörn á að skoðanakannanir bendi ekki til þess að meirihluti Íslendinga vilji hrófla við fyrirkomulagi áfengissölu. Verð á áfengi muni ekki lækka þó það verði fært í matvöruverslanir þar sem stærsti hluti verðsins sé skattlagning ríkisins sem sé ekki að fara breytast.

„Fyrirkomulag áfengissölu hér á landi er í öllum aðalatriðum gott – og almenningur virðist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á breyta því. Skaðinn sem kann að hljótast af ótímabærum breytingum og auknu aðgengi kann hins vegar að verða umtalsverður. Það eru því engin skynsamleg rök sem mæla með því að breyta núna fyrirkomulagi sem gefist hefur vel og almenn sátt er um,“ skrifar Þorbjörn.

Grein Þorbjörns í nýjasta tölublaði Læknablaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert