Stutt í háspennulínurnar

Á vettvangi við Sigöldulínu 4.
Á vettvangi við Sigöldulínu 4. Ljósmynd/Landsnet

Vegna fjölgunar fjallaferða með hækkandi sól vill Landsnet vekja athygli á því að víða á hálendinu er nú hættulega stutt upp í háspennulínur vegna mikilla snjóalaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

„Sérstaklega er vakin athygli á stöðu mála að Fjallabaki þar sem mikil snjóalög eru í kringum Sigöldulínu 4. Ekki hefur verið gripið til sérstakra merkinga þar en útivistarfólk er beðið um að fara með gát, sérstaklega á þeim svæðum sem sýnd eru með rauðum hring á meðfylgjandi korti. Þetta eru þekkt snjóasvæði en veður og vindar í vetur, sem á stundum hafa verið frekar suðlægir, gætu líka hafa valdið snjósöfnun á óhefðbundnum stöðum

Þá skal áréttað að háspennulínur eru ekki alltaf sýnilegar vegna snjóa og slæms skyggnis. Í miklu fannfergi minnkar bil frá jörðu að línu og ísing getur leitt til þess að línur sigi mikið. Við verstu aðstæður geta leiðarar verið á kafi í snjó og lífsnauðsynlegt að gæta ýtrustu varúðar. Allir sem ætla að fara á fjöll, bæði vélsleða-, skíða- og göngufólk, eru því hvattir til að fara með mikilli gát nærri háspennulínum og möstrum. Góð regla er að athuga hvort og þá hvar háspennulínur liggja um það svæði sem ferðast skal um, áður en lagt er af stað,“ segir í tilkynningunni.

Hættusvæði við Sigöldulínu 4.
Hættusvæði við Sigöldulínu 4. Kort/Helgi Þorvaldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert