Þórarinn og Bergrún tilnefnd

Þórarinn Leifsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Þórarinn fyrir bók sína Maðurinn sem hataði börn og Bergrún fyrir bókina Vinur minn, vindurinn. 

Dómnefnd barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs útnefnir verðlaunahafann og tilkynnt verður um úrslit við  athöfn í Reykjavík þann 27. október. Í verðlaun eru 350 þúsund danskar krónur.

Hér má lesa tilnefningarnar í heild.

Í íslensku dómnefndinni sitja: Gísli Skúlason, Dagný Kristjánsdóttir og Helga Birgisdóttir. Hér að neðan má lesa rökstuðning hennar í heild:

Maðurinn sem hataði börn er þriðja barnabók Þórarins Leifssonar. Fyrri bækur hans, Leyndarmál pabba (2007)og Bókasafn ömmu Huldar (2009), eru nýstárlegar, spennandi, fyndnar og skelfilegar. Sú fyrri fjallar um pabba sem er enginn venjulegur pabbi heldur er hann mannæta. Sú seinni fjallar um framtíðarheim þar sem öllum bókum er kerfisbundið útrýmt. Nýjasta bók Þórarins er hefur sömu höfundareinkenni og  fyrri bækurnar tvær: Fyndin,  spennandi, fræðandi og hrollvekjandi en fyrst og fremst sterk og frumleg.

Söguhetja bókarinnar er Sylvek Kaminski Arias, spænskur innflytjandi af pólskum uppruna, sem býr í Reykjavík með ömmu sinni. Móðir hans er dáin, eldri systir hans er þegar sagan hefst horfin og– þau eru  alveg að verða búin með evru-pokann sem þau komu með frá Barcelona fyrir tveimur árum.  Fjölskyldan ein og sér er efni í skáldsögu en þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum því borgin nötrar af ótta við drengjamorðingja af herfilegustu sort. Nýi leigjandinn á heimili Sylveks reynist svo vera barnahatari og Sylvek er sannfærður um að það sé hann sem er drengjamorðinginn. Sagan sem fylgir í kjölfarið er æsispennandi og berst niður í undirheima Reykjavíkur á ævintýralegan hatt. Sagan er leynilögreglusaga, menningarádeila, saga um skáldskap og fjöldamenningu, en fyrst og fremst þroskasaga Sylveks, nýbúa í því framandi og furðulega samfélagi sem sagan lýsir.

Ekki er ólíklegt að lesendur spyrji sig hvort bók á borð við Manninn sem hataði börn sé við barna hæfi. Í bókinni er tekið á háalvarlegum, flóknum og umdeildum málefnum en Þórarinn notar húmor og íroníu til að snúa upp á veruleikann og sýna hann í öðru ljósi. Bókin hefur verið tilnefnd til margra verðlauna á Íslandi .

Þórarinn Leifsson (f. 1966) er rithöfundur, myndlistarmaður og myndskreytir, fæddur í Reykjavík. Hann hefur meðal annars starfað sem götulistamaður, grafískur hönnuður og höfundur barna- og unglingabóka. Meðal verka hans eru myndskreytingar við röð ævintýra eftir H.C. Andersen sem kom út víða á Norðurlöndum.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Vinur minn, vindurinn fjallar um uppáhaldsumræðuefni Íslendinga og það sem þeir hafa mestan áhuga á: Veðrið. Bókin er ætluð yngstu börnunum.  Bókin er ekki orðmörg, aðeins nokkur orð eða setningar skreyta hverja opnu og hún líkist þannig bendibókum sem fullorðnir tala um við börnin. Fullorðnir lesendur fá gott færi á að vekja athygli barnanna  á hinum sífelldu veðrabrigðum og kenna þeim hvaða orð eiga við hvert afbrigði vinds og úrkomu.

Myndirnar í bókinni nota bakgrunninn til að búa til stemningu veðrabrigðanna, harða eða mjúka. Litirnir eru mildir pastellitir og teikningin í forgrunni fígúratív og einföld þó litasamsetningin sé það ekki. Á myndunum má sjá laufblöðin dansa eða fjúka – allt eftir því hvort það er vindur, gola eða logn. Grasið sveigist líka til og frá og trén sem líkjast fólki svigna í vindinum. Lesendur eru boðnir velkomnir inn í söguna og þeir beðnir um að taka eftir því hvernig veðrið hagar sér og breyta sér í veðrið,  blása eins og vindurinn, öskra eins og rokið eða hvísla eins og golan. Mesta athygli vekur þó kötturinn sem er eina „persóna“ bókarinnar og fulltrúi barnsins í bókinni, mjúkur og bústinn. Hann er að finna á nær hverri opnu og ráða má af líkamstjáningu hans hvernig vindurinn blæs.

Bergrún Íris Sævarsdóttir (f.  1985), er með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands. Hún lauk einnig diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún hefur myndskreytt nokkrar barnabækur og tölvuleiki. Vinur minn vindurinn er fyrsta barnabókin sem hún vinnur ein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert