Vill íþróttaframhaldsskóla í Kópavog

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmaður Framsóknarflokksins, Willum Þór Þórsson, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að hefja viðræður við bæjarstjórn Kópavogs um stofnun nýs framhaldsskóla í Kópavogi sem bjóði upp á nám til stúdentsprófs og sérhæfi sig á sviði íþrótta.

„Fjölgun íbúa í Kópavogi kallar á byggingu nýs framhaldsskóla í bæjarfélaginu. Reynsla nágrannalandanna í að samþætta nám og íþróttir við sérhæfða íþróttaskóla hefur gefist afar vel. Það er því ráðlegt að grípa tækifærið til þess að koma á fót slíkum skóla hér á landi. Þar spilar inn í sú íþróttaaðstaða sem er að finna í Kórnum í Kópavogi,“ segir meðal annars í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Vísað er ennfremur til þess að Kópavogur sé næststærsta sveitarfélag landsins og ekki sé unnt að bæta við rými við Menntaskólann í Kópavogi.

„Fyrir þjóðina í heild getur íþróttaframhaldsskóli lagt grunn að bættri umgjörð og aðbúnaði fyrir afreksíþróttir en sveigjanleiki í námi, vegna æfinga og keppnisferða, og aðgangur að góðri þjálfunaraðstöðu getur orðið stökkpallur til afburða árangurs í íþróttum. Tillagan miðar að því að hinn nýi skóli yrði íþróttaskóli en ráðlegt er að veita starfshópi svigrúm til þess að móta hvaða hlutverki sú sérhæfing mundi gegna í starfi skólans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert