Það þurfti ekki meira en eina teskeið

Grétar Bragi Bragason innbyrti þvottaduft fyrir tæpum 30 árum og …
Grétar Bragi Bragason innbyrti þvottaduft fyrir tæpum 30 árum og hefur glímt við veikindi síðan þá. mbl.is/Árni Sæberg

Afleiðingarnar af því að innbyrða þvottaefni fyrir uppþvottavélar geta verið skelfilegar, eins og Grétar Bragi Bragason fékk að reyna fyrir hartnær 30 árum þegar hann var rúmlega eins árs og stakk upp í sig teskeiðarfylli af efninu. Vélinda hans brann, hann var veikur meira eða minna fyrstu 10-15 æviárin og hann hefur átt við margvíslegan heilsubrest að stríða sem ekki sér fyrir endann á. Herdís Storgaard hjá Miðstöð slysavarna barna segir að erlendis hafi börn látist eftir að hafa borðað þessi efni í óvitaskap, en í þeim eru ætandi efni sem eru skyld vítissóda. Hún segir smáar töflur og hylki með þessum efnum sérlega varasöm því þau séu gjarnan litrík og líkist girnilegum sætindum í augum ungra barna.

Neytendastofa tekur nú þátt í átaksverkefni á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD vegna þvottaefnahylkja í uppþvottavélar. Átakinu er ætlað að upplýsa neytendur, einkum foreldra ungra barna, um hvernig öruggast sé að geyma þvottaefnið og halda því frá börnum. Árlega er tilkynnt um 16.000 eitrunarslys vegna þvottataflna víða um heim, einkum á börnum, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu átaksins.

Fljótandi efnið er hættulegast

„Það hafa t.d. orðið mörg mjög alvarleg slys í Bretlandi, m.a. dauðsföll,“ segir Herdís. Hún segir þvottaefni fyrir uppþvottavélar selt í þrenns konar formi: duft, töflur og fljótandi efni í litlum plastkoddum. Það síðastnefnda valdi einna mestum áhyggjum. „Þetta er smátt og oft skærlitt, ekki ósvipað sælgætismolum. Innihaldið er það sama, burtséð frá því í hvaða formi efnið er, en fljótandi efnið er hættulegast. Það skaðar strax en þarf ekki að leysast upp eins og duftið.“

Herdís segir að þvottaefni fyrir uppþvottavélar innihaldi m.a. ætandi efni skyld vítissóda sem skaði þann sem þau innbyrðir á tvenns konar hátt; þau bæði brenni og eitri. Hún nefnir dæmi um tvö íslensk börn sem brenndust í munni eftir að hafa innbyrt lítið magn, í öðru tilvikinu var um að ræða blautt uppleyst þvottaefni sem hafði ekki klárast við uppþvott, barnið potaði í það og sleikti síðan fingur sinn.

Bruni og eitrun

„Það er tvennt sem gerist; bruni og eitrun. Eitrið fer út í líkamann og hefur ýmis eitrunaráhrif sem geta haft ýmis áhrif á líkamsstarfsemina. Ef efnið fer ofan í maga verður bruni á vélinda og jafnvel maga ef efnið fer alla leið niður. Fljótandi efnin eru þess vegna sérstaklega hættuleg því að um leið og þau eru innbyrt byrjar bruninn,“ segir Herdís.

Hún segir að brýnt sé að vekja athygli á innihaldi þessara þvottaefna og hvetja foreldra til að sýna aðgát. Uppþvottavélar séu á flestum heimilum og þær séu oftast í þeirri hæð sem ung börn nái í. „Ég heyri á ungum foreldrum sem koma í fræðslu til mín að þeir gera sér ekki grein fyrir hvað þetta eru hættuleg efni.“

Hefur markað allt hans líf

Grétar Bragi verður 31 árs í sumar, hann er í byggingatæknifræðinámi við Háskólann í Reykjavík og er nýlega trúlofaður. Þessa dagana er hann á „kafi í próflestri og verkefnaskilum“ eins og hann orðar það. Ekkert ósvipað daglegu lífi margra á hans aldri.

En líf Grétars hefur verið allt annað en hefðbundið því afleiðingar slyssins hafa haft margvísleg áhrif. „Ég þekki ekkert annað en þessi veikindi, þetta hefur markað allt mitt líf,“ segir Grétar.

„Eitt árið var ég um 75% frá námi í grunnskóla og ég náði ekki að nærast nema með slöngu þangað til fyrir um 18 árum. Meltingarkerfið náði ekki að vinna, það var allt ónýtt. Eftir öll þessi inngrip fékk ég svo fæðuofnæmi og fæðuóþol. Ég er með bráðaofnæmi fyrir latexi vegna latexhanska og annarra efna sem voru notuð í aðgerðum, líka með svokallað krossofnæmi og má ekki borða hnetur, kíví og banana. Þetta leiddi af aðgerðunum og veikindunum.“

Gerir það besta úr aðstæðum

Grétar hefur ekki þurft að fara í stórar aðgerðir undanfarin sex ár, en er ennþá undir læknishendi því hann á enn í erfiðleikum með að nærast. Nú er hann í rannsóknum þar sem verið er að leita leiða til að hann geti nærst betur.

„Auðvitað hefur þetta reynt á og oft verið reynsla sem ég hefði viljað vera án. En ég var svo lítill þegar þetta gerðist og man ekkert eftir mér fyrir þennan tíma. Ég hef bara þurft að lifa þessu lífi og gera það besta úr því.“

Fagleg ráðgjöf er lykilatriði

Átak OECD er framtaksverkefni alþjóðasamtaka þvottaefnaiðnaðarins. Á vefsíðu átaksins, www.keepcapsfromkids.eu, má m.a. finna öryggisábendingar og leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við leiki grunur á að barn hafi innbyrt þvottaefni fyrir uppþvottavélar. Herdís segir að alls ekki eigi að framkalla uppköst við slíkar aðstæður. Efnið hafi þegar farið í gegnum vélindað og í maga og sé því kastað upp fari efnið aftur upp og þá verði tvöfaldur bruni sem geti haft mikinn skaða í för með sér.

„Það er skynsamlegast að gera ekki nokkurn skapaðan hlut fyrr en búið er að ná í Neyðarlínuna og fá ráðleggingar um hvað á að gera eða bíða eftir sjúkrabíl ef málið er alvarlegt. Það verður að fá faglega ráðgjöf, það er algert lykilatriði,“ segir Herdís.

Þriðjudagurinn 13. ágúst 1985

„Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Þetta var þriðjudagurinn 13. ágúst 1985. Við hjónin vorum í eldhúsinu að tala saman og Grétar lék sér á eldhúsgólfinu við hliðina á okkur. Hann opnaði skáp þar sem við geymdum þvottaefnið í uppþvottavélina. Í þvottaefniskassanum var teskeið með þvottaefni í sem Grétar náði í og stakk upp í sig,“ segir Margrét Svavarsdóttir, móðir Grétars Braga, sem var 14 mánaða gamall þegar þetta gerðist. Margrét og Bragi eiginmaður hennar sáu strax að drengurinn hafði brennst í munni og átti erfitt með að anda. Þau fóru umsvifalaust með hann á slysadeildina þar sem hann var í framhaldinu lagður inn á gjörgæslu.

Í ljós kom að vélindað og stór hluti maga Grétars höfðu orðið fyrir miklum skaða, þau höfðu brennst af ætandi efnum í þvottaefninu. Næstu árin tóku við læknismeðferðir, aðgerðir og sjúkrahúsdvöl innanlands og utan. Meðal annars var útbúið nýtt vélinda úr hluta af ristli Grétars, hann þurfti um skeið að hafa nokkurs konar tappa á maganum til að geta tekið við næringu, matur fór ítrekað ofan í lungu hans því barkalokan, sem lokar barkanum þegar kyngt er, brann, hann átti það til að fá lungnabólgu oft í mánuði og var meira og minna veikur fyrstu 10-15 ár ævinnar. „Það gerðist svo margt, hann var veikur á margan hátt,“ segir Margrét. „Hann hefur farið í 65 svæfingar og átta aðgerðir í Bandaríkjunum. Það bjargaði miklu hvað við eigum góða að og hvað hann og við fengum mikinn stuðning frá heilbrigðisstarfsfólkinu.“

Við megum ekki sofna á verðinum

Að sögn Margrétar voru lítt áberandi viðvörunarmerkingar á erlendum tungumálum á umbúðum þvottaefnisins sem Grétar innbyrti. Hún segir að eftir slysið hafi reglugerðum verið breytt á þann veg að merkingarnar skyldu vera á íslensku. Einnig voru þessi efni tekin úr neðstu hillum verslana.

Margrét segist aldrei losna við reiðina vegna þess sem gerðist. „Ég mun aldrei sætta mig við þetta. Ég held að ég losni aldrei við þá tilfinningu. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að ég fór að vinna í mínum eigin tilfinningum vegna þessa; sjálfsásökun og reiði. En það sem stendur eftir er að Grétar hefur unnið eins vel úr sínum málum og hægt er.“

Hún segist meira en fús til að leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á þeim skaða sem af þessum efnum getur hlotist. „Margir af minni kynslóð eru meðvitaðir um þetta, það var nokkuð fjallað um slys Grétars í fjölmiðlum á sínum tíma. En síðan eru liðin 30 ár, það eru komnir nýir ungbarnaforeldrar og við megum ekki sofna á verðinum. Það er svo mikið í húfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert