Fyrstu tónleikar Sinfóníunnar sem falla niður vegna verkfalla

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkum Mozarts í kvöld undir stjórn …
Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkum Mozarts í kvöld undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Olari Elts ásamt einleikaranum Shai Wosne falla niður í kvöld vegna verkfalls BHM. ljósmynd/Ari Magg

Allsherjarverkfall hjá 17 aðildarfélögum BHM gerir það að verkum að Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður í verkfalli frá kl. 19 til 23 í kvöld. Á dagskrá voru verk eftir Mozart undir stjórn Eistneska hljómsveitarstjórans Olari Elts en hann og píanóleikarinn Shai Wosner komu sérstaklega til landsins vegna tónleikana sem nú falla niður vegna verkfalls. Mikill skilningur ríkir meðal tónleikagesta samkvæmt miðasölu Hörpu en þeir geta valið um miða á aðra tónleika starfsársins eða fengið endurgreitt. 

Formaður samningarnefndar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Emil Friðfinnsson segir að þar sem ekkert hafi komið út úr samningarfundi samn­inga­nefnd­ar rík­is­ins og full­trúa Banda­lags Há­skóla­manna í gær muni hljómsveitin taka þátt í allsherjarverkfallinu. „Okkar starfstími er á kvöldin og því falla tónleikarnir niður. Við munum æfa verkin sem eru á dagskrá og að æfingu lokinni munum við taka þátt í kröfugöngunni."

„Íslendingar mega vita hversu góða hljómsveit þeir eiga"

Að sögn Margrétar Ragnarsdóttur, kynningarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar ákvað hljómsveitarstjórinn Olari Elts að tónleikarnir yrðu æfðir í heild sinni í dag þrátt fyrir að ekkert verði af tónleikum og stendur æfingin yfir nú fyrir hádegi. „Hann vildi að meðlimir hljómsveitarinnar fengju tækifæri til að leika verkin líkt og á tónleikum til þess að fá tilfinningu fyrir því að leika efnisskrána í heild sinni." 

Mbl.is náði tali af Olari Elts en hann stjórnaði hljómsveitinni síðast í Háskólabíói 2003. „Það er frábært að sjá hvað Sinfóníuhljómsveitin hefur þroskast og dafnað eftir að hún flutti í Hörpu. Við erum búin að æfa alla þessa viku og það er auðvitað synd að það fái ekki að hljóma í Eldborg í kvöld. Íslendingar mega vita hversu góða sinfóníuhljómsveit þeir eiga." 

Nokkrir erlendir hópar áttu miða á tónleika kvöldsins

Margrét segir að auðvitað sé tap af því fyrir hljómsveitina að hingað hafi komið einleikari og hljómsveitarstjóri en ekkert verði úr tónleikum fyrir um 1200 gesti í Eldborg. „Allir hafa þó tekið þessu með miklum skilningi. Nokkrir erlendir hópar áttu bókaða miða á tónleika kvöldsins og munu þeir fá endurgreitt."

Margrét bætir við að eftir bestu vitneskju séu þetta fyrstu tónleikarnir í sögu Sinfóníuhljómsveitarinnar þar sem tónleikar falla niður vegna verkfalls hljóðfæraleikara en hljómsveitin var stofnuð árið 1950. Dagskrá kvöldsins var aðgengileg en þar átti m.a. að flytja píanókonsert K.466 eftir Mozart sem hefur notið gífurlegra vinsælda tónleikagesta og flytjenda frá upphafi.

Áskrifandi í þrjátíu ár

Örn Svavarson hefur verið áskrifandi að tónleikaröðum Sinfóníunnar í um þrjátíu ár og segir það svekkjandi að tónleikar kvöldsins falli niður þar sem svo falleg verk voru á dagskrá. „En þegar maður er orðinn svona gamall þá hefur ýmislegt gerst á ævinni þannig að hriktir ekki í neinu þó að það falli niður einir tónleikar." Aðspurður segist Örn ætla að heyra í miðasölunni um hvort það séu einhverjir tónleikar framundan sem hann eigi ekki miða á.

„Án þess að ég þekki nokkuð til kjaramála hljómsveitarinnar þá dáist ég að þessu fólki sem leggur svona mikla rækt í sitt tónlistarnám og þarf að eyða svona miklum tíma til að viðhalda sinni getu þrátt fyrir að þeir beri ekki mikinn fjár úr býtum. Þar fyrir utan óttast ég þessi verkföll sem framundan eru og að þau séu að leiða okkur inn í nýtt verðbólgutímabil. Það er bara verðbólga og kólnandi veður framundan, kannski er dálítil nostalgía fólgin í því," segir hann og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert