Kröfuhafarnir njósna og sálgreina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir flestar, ef ekki allar, stærri lögmannsstofur landsins hafa unnið fyrir erlenda kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna eða fulltrúa þeirra. Það hafi einnig helstu almannatengslafyrirtæki landsins gert. 

Þetta kom fram í yfirlitsræðu hans við setningarathöfn 33. flokksþings framsóknarmanna í dag.

Sigmundur fór ítarlega yfir áform um losun fjármagnshafta og myndun þess efnahagslega svigrúms sem þarf að skapast samfara því. Sagði hann stærstu hindrunina við losun haftanna vera hin óuppgerðu slitabú föllnu bankanna.

Kröfur á slitabúin upp á þúsundir milljarða

Benti hann á að gjaldþrot þessara þriggja fjármálafyrirtækja hefðu öll komist inn á lista yfir stærstu fyrirtækjagjaldþrot í heimssögunni og það allt samtímis í einu minnsta sjálfstæða hagkerfi veraldar. Eftir stæðu kröfur á slitabúin, og eignir, upp á þúsundir milljarða.

„Þessar kröfur hefði ríkið getað keypt að miklu leyti á hrakvirði, á sínum tíma eins og við framsóknarmenn lögðum til. Þá væri landið löngu búið að vinna sig út úr öllum efnahagsþrengingum,“ sagði hann, en langstærstur hluti krafnanna er nú í eigu erlendra vogunarsjóða. „Þeir keyptu kröfurnar á brunaútsölu eftir fall bankanna og hafa hagnast gríðarlega, að minnsta kosti á pappírunum.“

„Menn leggja ýmislegt á sig fyrir slík verðmæti

Sigmundur sagði kröfur í slitabú föllnu bankanna svo háar að erfitt væri að gera sér það í hugarlund. Matið sveiflast, m.a. eftir gengi gjaldmiðla, en það nemur yfir 20 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur yfir 2.500 milljörðum króna. Sagði hann að ef sú upphæð væri ávöxtuð væri hægt að halda Ólympíuleika, bara fyrir vextina, á fjögurra ára fresti út í hið óendanlega. „Menn leggja ýmislegt á sig fyrir slík verðmæti.

Sigmundur sagði þann mikla iðnað sem til væri víða um heim til að verja eða komast yfir fjármagn, og fengist við öryggisgæslu, iðnnjósnir eða hvers konar hagsmunagæslu, sjaldan fást við slíkar upphæðir. „Hollywoodmyndir hafa gefið okkur hugmynd um hvers konar ævintýri menn fara út í fyrir 10 milljónir Bandaríkjadala. Upphæðin sem hér er undir er 2.000 sinnum það.“

Keyptu hagsmunagæsluþjónustu hér á landi fyrir 18 milljarða

Þá sagði hann vogunarsjóði í New York og London marga hverja þekkta fyrir að fylgja hagsmunum sínum mjög fast eftir. „Menn geta því rétt ímyndað sér hvort fulltrúar þessara sjóða leggja ekki eitt og annað á sig til að verja og hámarka fjárfestingar sem nema fjörutíuföldum eignum bresku konungsfjölskyldunnar.“

Umsvifin væru nánast óhugnanleg og ómögulegt væri að segja til um hversu langt þau næðu, en nýlegar fréttir hermdu að kröfuhafar hefðu keypt hagsmunagæsluþjónustu hér á landi fyrir 18 milljarða króna á undanförnum árum.

Þá væri vitað að fulltrúar kröfuhafanna hefðu tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála. „Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það,“ bætti hann við.

Framsóknarflokkurinn helsti andstæðingur kröfuhafanna

Þá sagði hann Framsóknarflokkinn efstan á blaði í hópi andstæðinga kröfuhafanna:

Reglulega eru skrifaðar leyniskýrslur hérlendis fyrir kröfuhafana þar sem veittar eru upplýsingar um gang mála á Íslandi, í stjórnmálunum, opinberri umræðu, fjármálakerfinu o.s.frv. Í einni af fyrstu skýrslunum kom fram að ein helsta ógnin sem steðjaði að vogunarsjóðunum við að ná markmiðum sínum, ein helsta hindrunin í því að þeir gætu farið sínu fram, héti Framsóknarflokkurinn.

Í einni af nýjustu skýrslunum væru helstu niðurstöður raktar í punktaformi á forsíðu. Þar hefði blasað við eftirfarandi niðurstaða, orðuð svo á ensku: The Progressive Party stands firm on Icelandic interests. Framsóknarflokkurinn gefur ekki eftir íslenska hagsmuni.

„Það mega þeir eiga þessir karlar, þeir eru með helstu staðreyndir á hreinu,“ sagði Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert