Bílar fastir vegna ófærðar

Hellisheiðin er enn lokuð. Myndin er úr safni.
Hellisheiðin er enn lokuð. Myndin er úr safni. mbl.is/Malín Brand

Björgunarsveitir hafa aðstoðað bílstjóra í ófærð og sinnt lokunum vega af sömu orsökum víða í dag. Eins og kunnugt er gekk enn ein vetrarlægðin yfir landið í dag og var Hellisheiði, Lyngdalsheiði, Vatnsskarði og Víkurskarði til að mynda lokað.

Á Lyngdalsheiði og í Víkurskarði voru fastir bílar sem og í Fitjaskarði við Hvammstanga, Vatnsskarði, í Þórsmörk og í Súðavíkurhlíð, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Hellisheiðin er enn lokuð, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, en fært er um Þrengsli og Suðurstrandarveg. Lokað er um Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Á Suðurlandi er annars víða hálka eða hálkublettir og talsverður skafrenningur. Kjósarskarð er ófært.

Á Vesturlandi eru víðast hálkublettir á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Þó er ófært á Fróðárheiði og eins Bröttubrekku en þar er blindhríð. Snjóþekja og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.

Slæmt veður er á Vestfjörðum og aðeins opið milli helstu þéttbýlisstaða. Lokað er um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðs. Stórhríð er á Klettshálsi og Hjallahálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þarna er ófært og mokstur í biðstöðu vegna veðurs. Þungfært er í Djúpinu og Vatnsfjarðarhálsinn ófær. Vonskuveður er einnig á Ströndum og vegur ýmist þungfær eða ófær.

Ófært og stórhríð er á Vatnsskarði og Þverárfjalli og hálka er í Vestur-Húnavatnssýslu.

Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og stórhríð í Eyjafirði og þæfingur á Grenivíkurvegi. Ófært og stórhríð er á Víkurskarði en þungfært og skafrenningur í Dalsmynni.

Á Austurlandi er víða nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar éljagangur og skafrenningur. Autt með ströndinni suður um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert