Segir stjórnarandstöðuna upplýsta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Ómar Óskarsson

Stjórnarandstöðunni er haldið upplýstri um framvindu mála varðandi afnám hafta hér á landi. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag, en hann tók þó fram að stjórnarandstaðan sé þó ekki upplýst um öll atriði sem varða útfærsluna. Forsvarsmenn þeirra flokka ættu þó að vita í grófum dráttum hvernig málum sé háttað.

Sigmundur sagði að fyrir nokkru hefði þó komið upp sú staða að upplýsingar úr samráðshópi um afnám hafta hefði lekið út og að einhverjar upplýsingar hefðu verið rangar. Eftir það dró eitthvað úr því að stjórnarandstöðuflokkarnir fengju allar upplýsingar, en Sigmundur sagði að síðan þá hefðu mál þróast í rétta átt. 

Sigmundur var spurður að því hvort nægur tími væri til að kynna afnámstillögur fyrir þinginu fyrir þinglok og sagði hann að það myndi taka tíma að leiða málið til lykta en að hann væri bjartsýnn á að það gengi vel.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina sagði Sigmundur að erlendir kröfuhafar hefðu sett háar fjárhæðir í að njósna um og jafnvel sálgreina ákveðna einstaklinga. Í þættinum var hann spurður hvort hann hefði séð slíka skýrslu og játaði Sigmundur því. Sagði hann jafnframt að í þessu máli væri mikið um að reynt væri að dreifa allskonar eiturpillum til að eitra umræðuna um losun hafta og þrotabú föllnu bankanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert