Kjósa þarf aftur í rektorskjörinu

Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal í kvöld þegar tölurnar …
Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal í kvöld þegar tölurnar voru lesnar upp. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Atli Benediktsson hlaut 48,9% greiddra atkvæða í rektorskjörinu í Háskóla Íslands sem fram fór í dag. Guðrún Nordal hlaut 39,4% og Einar Steingrímsson 9,7%. Það er því ljóst að kjósa þarf á nýjan leik á milli tveggja efstu frambjóðendanna þar sem hljóta þarf meirihluta atkvæða til að ná kjöri. Síðari umferð kosninganna fer fram eftir viku.

Á kjörskrá voru 14.110, þar af 1.486 starfsmenn og 12.624 stúdentar. Við kosningar greiddu atkvæði alls 1.286 starfsmenn eða 86,6% á kjörskrá og 5.080 stúdentar eða 40,2% á kjörskrá. Alls greiddu 6.366 atkvæði og var því kosningaþátttaka í heild 45,1%. Atkvæði utan kjörfundar voru 71 og auðir seðlar voru 206 eða 3,2% af greiddum atkvæðum. Gild atkvæði voru því 6.160.

Atkvæði háskólakennara og annarra starfsmanna sem hafa háskólapróf giltu sem 60% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta giltu sem 30% greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila giltu sem 10% greiddra atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert