Rakst á „ÍR-ing“ í Tansaníu

Arndís og
Arndís og "ÍR-ingurinn" Alexander. Ljósmynd úr einkasafni.

„Þegar ég sá ÍR merkið hugsaði ég fyrst með mér: „Nei, það getur ekki verið“ en ég leit aftur á það og þá fór það ekki á milli mála. Þetta var ÍR merkið og íþróttagallinn passaði líka við það,“ segir Arndís Jóna Guðmundsdóttir, sem er nú stödd í Moshi í Tansaníu. Arndís var á leið í safaríferð um páskana og þegar hún fór í gegnum bæinn Arusha þegar hún sá ungan mann klæddan íslenskum íþróttajakka.

„Ég varð mjög hissa, benti á strákinn og kallaði á alla að hann væri í íslenskum íþróttajakka. Mér leið alveg verulega kjánalega því ég ætlaði fyrst að reyna að taka mynd af honum í „leyni“. Ég dreif því í einni mynd þegar hann nálgaðist en fékk leiðsögumanninn minn til að tala við hann,“ segir Arndís. Leiðsögumaðurinn gerði það en ungi maðurinn talaði bara swahili.

Arndís sagði fyrst frá „ÍR-ingnum“ á bloggsíðu sinni en hún hefur verið í Tansaníu í sex vikur. Þar starfar hún sem sjálfboðaliði á endurhæfingarstofnun fyrir börn með einhverfu og þroskafrávik.

„Þegar drengurinn kom nær sá ég að það stór skýrum störfum „ÍR-Skíðadeild-Hrefna María“ á jakkanum,“ segir Arndís sem spurði ekki hvaðan jakkinn kom en gerir ráð fyrir því að hann hafi komið í fatagámi með notuðum fötum. Að sögn Arndísar fannst „ÍR-ingnum“ þetta fyndin og skemmtileg tilviljun. „Ég veit ekki hvort að hann hafi vitað hvaðan jakkinn kom en hann var meira en til í að leyfa mér að taka mynd af okkur tveimur saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert