Fleiri verkföll á mánudaginn

BHM-félagar. Fjöldi þeirra í verkföllum fer væntanlega yfir 3000 á …
BHM-félagar. Fjöldi þeirra í verkföllum fer væntanlega yfir 3000 á mánudaginn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Allt lítur út fyrir að verkföll hjá Fjársýslu ríkisins og Matvælastofnun hefjist á mánudaginn, en lítið þokaðist í viðræðum ríkisins og Bandalags háskólamanna (BHM). Ef af verkföllunum verður fer fjöldi starfsmanna undir merkjum BHM sem eru í verkföllum yfir 3000 manns. Páll Halldórsson, formaður BHM segir að lítið hafi gerst á síðustu fundum og segir ríkið ekki leggja gera neina tilraun til að nálgast kröfur bandalagsins.

„Það gerðist ekki neinn skapaður hlutur í dag,“ segir Páll um fundinn í dag. Segir hann að deiluaðilar séu í nákvæmlega sömu stöðu og fyrir fundinn. Næsti fundur er ekki boðaður fyrr en klukkan hálf fjögur á mánudaginn, en sama dag munu verkföll Fjársýslunnar og Matvælastofnunar hefjast.

Meðal annars hægt að ræða um námslán

Páll segir ríkið áfram bjóða 3,5% hækkun, en að það sé talsvert frá kröfum bandalagsins. Hann segir að ekki sé aðeins horft til beinna hækkana, heldur væri hægt að koma til móts við félagsmenn á ýmsan hátt. Nefnir hann sem dæmi að ríkið gæti skoðað afborganir námslána, en í dag tekur það félagsmenn BHM um þrjár vikur á hverju ári að vinna fyrir afborgunum. „Það er margt svona hægt að skoða, en þá þurfum við að hafa eitthvað í hendi,“ segir Páll.

Hann segir kröfur BHM ekki síst ganga út á að koma launakjörum háskólafólks á réttan kjöl þannig að ungt fólk sjái fyrir sér framtíð hér á landi.

Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM).
Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert